Fréttir

Knattspyrna | 25. apríl 2004

Sigur hjá 3. flokki

S.l. föstudag lék 3. flokkur kvenna gegn Aftureldingu á Leiknisvelli og sigruðu 4-1.  Nokkurt jafnræði var í fyrri hálfleik og komst Afturelding yfir þegar við urðum fyrir því óláni að gera sjálfsmark; varnarmaður hugðist senda boltann til baka á markmann en einhver misskilningur varð á milli þeirra og boltinn fór í markið.  Ekki létu stelpurnar þetta óhapp slá sig út af laginu eins og oft vill gerast þegar þær lenda undir heldur tvíefldust þær.  Um miðjan hálfleikinn fengum við dæmda aukaspyrnu rétt fyrir utan teig.  Eva tók spyrnuna, boltinn small í slána og eftir smá klafs tókst Katrínu að setja knöttinn í netið.  Þegar um fimm mínutur voru eftir af fyrri hálfleik komumst við yfir.  Helena Rós tók á rás með boltann upp vinstri kant alveg upp að endamörkum, hún lagði boltann á Karen sem beið á markteig og átti ekkert annað eftir en að setja knöttinn í markið.  Staðan í hálfleik1-2.

Í seinni hálfleik sýndu stelpurnar virkilega hvað í þeim býr.  Þær fóru að bíta frá sér og nota breiddina á vellinum.  Við þetta riðlaðist allur leikur hjá heimamönnum; baráttan og viljinn var svo mikill hjá stelpunum að hrein unun var á að horfa.  Þriðja markið skoraði Karen eftir að hafa fengið stungusendingu frá Helenu Rós og fjórða markið skoraði Helena Rós eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörnina frá Katrínu.  Í þau fáu skipti sem heimamenn nálguðust markið okkar í seinni hálfleik hirti Anna Rún það en hún var öryggið uppmálað allan leikinn.  Ekki er hægt að segja að einhver ein hafi staðið upp úr í þessum leik því allar áttu stelpurnar virkilega góðan leik að þessu sinni.  Þessi leikur sýndi þeim að ef hugarfarið er rétt og baráttan er fyrir hendi er allt hægt.

3. flokkur kvenna:
Afturelding - Keflavík: 1-4 (Karen Sævarsdóttir 2, Helena Rós Þórólfsdóttir, Katrín Helga Steinþórsdóttir)

Byrjunarlið: Anna Rún Jóhannsdóttir, Ingibjörg Sesselja Björnsdóttir, Elísabet Guðrún Björnsdóttir, Rebekka Gísladóttir, Bergþóra Sif Vigfúsdóttir, Birna Marín Aðalsteinsdóttir, Eva Kristinsdóttir, Katrín Helga Steinþórsdóttir, Helena Rós Þórólfsdóttir, Andrea Frímannsdóttir, Karen Sævarsdóttir.

Varamenn (tóku allar þátt í leiknum): Birna Ásgeirsdóttir, Guðbjörg Lára Guðjónsdóttir, Hildur Haraldsdóttir, Guðmunda Gunnarsdóttir, Sonja Ósk Sverrisdóttir, Justyna Wróblewska.

Elís Kristjánsson, þjálfari