Sigur hjá 3. flokki í „mottuleik“
Stúlkurnar í 3. flokki kvenna heimsóttu lið Hauka að Ásvöllum í gær í Íslandsmótinu. Leikið var á gervigrasinu (mottunni) og er alveg með ólíkindum að Haukar skuli bjóða liðum að spila á þessum velli í yngri flokkum þegar auður grasvöllur er á svæðinu. Þessi völlur (mottan eins og ég kýs að kalla hann) er ekki bara hættulegur heldur er ógjörningur að spila á honum. Ég er hræddur um að Haukar segðu eitthvað ef við færum að bjóða þeim að spila á malarvelli um mitt sumar en nóg um það.
Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega af okkar hálfu og náðum við að skora eina mark þessa leiks á 7. mínútu. Þá náði Karen Herjólfs boltanum eftir útspark frá markmanni Hauka, lék boltanum inn í teig og setti hann í hægra hornið, 1-0. Eftir markið datt leikur okkar nokkuð niður en við fengum þó nokkur færi á að auka forskot okkar sem ekki nýttust. Miðað við gang leiksins í fyrri hálfleik hefði ekki verið ósanngjarnt að við værum þremur til fjórum mörkum yfir í hálfleik. Í seinni hálfleik var eins og allur vindur væri úr okkur og Haukar sóttu ansi mikið á okkur. En við náðum þó að halda haus út leiktímann og taka þessi þrjú stig sem í boði voru.
Liðið var að spila mjög illa í leiknum og áttu vallaraðstæður ríkan þátt í því. Stelpurnar kunnu einfaldlega ekki að spila á þessum hörmungarvelli, höfðu litla stjórn á boltanum og áttuðu sig illa á rennsli knattarins. Þrátt fyrir þessar lélegu aðstæður náðist sigur og var það fyrir öllu. Plúsinn við þennan leik er sá að hann er búinn og við eigum ekki eftir að spila á þessari mottu aftur í sumar.
3. flokkur, Haukar - Keflavík: 0-1 (Karen Herjólfsdóttir)
Keflavík: Anna Rún, Bergþóra, Helga Maren, Eva, Fanney, Birna Marín, Sonja, Hildur, Helena Rós, Karen S., Karen H., Ingibjörg, Kristín, Jóna, Sigrún.
Mynd: Karen Herjólfsdóttir skoraði sigurmarkið mikilvæga gegn Haukum