Fréttir

Knattspyrna | 6. ágúst 2010

Sigur í Árbænum

Keflavík vann langþráðan sigur í gærkvöldi þegar okkar menn sigruðu Fylkismenn í 14. umferð Pepsi-deildarinnar.  Lokatölur urðu 2-1 í kaflaskiptum leik þar sem sigurinn var tryggður á dramatískum lokamínútum.  Eftir fjóra leiki án sigurs er óhætt að segja að leikmenn og stuðningsmenn hafi verið orðnir nokkuð óþreyjufullir eftir sigri en vonandi er liðið að finna taktinn og heppnina sem hefur ekki verið með í för í síðustu leikjum.

Heimamenn mættu ákveðnir til leiks og höfðu þegar átt nokkur færi þegar þeir náðu forystunni eftir tuttugu mínútna leik.  Þá var dæmd vítaspyrna þegar Bjarni handlék boltann í teignum.  Í kjölfarið fór Ómar út af og Lasse kom inn í sínum fyrsta leik í sumar.  Hann átti enga möguleika í vítinu sem Albert Brynjar Ingason afgreiddi af miklu öryggi.  Stuttu seinna þurfti Guðjón svo að fara út af eftir að hafa fengið skurð sem fossblæddi úr.  Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Fylki.

Okkar lið kom ákveðnara til leiks í seinni hálfleik.  Það var þó ekki fyrr en um tíu mínútur voru eftir af leiknum að hlutinir fóru að gerast.  Þá var dæmd vítaspyrna þegar brotið var á Magnús Þóri í teignum og einn Fylkismanna fékk sitt annað gula spjald.  Guðmundur fór á punktinn og skoraði örugglega úr vítinu.  Stuttu seinna var Guðmundur svo aftur á ferðinni þegar hann renndi boltanum laglega inn fyrir vörn heimamanna þar sem Jóhann Birnir kláraði færið af yfirvegun og tryggði 2-1 sigur.

Keflavík er nú í 4. sæti deildarinnar 23 stig en Fylkir er í því 9. með 15 stig.

Næst á dagskránni er stórleikur á heimavelli þegar KR-ingar koma í heímsókn á sunnudaginn.  Það má segja að segja að þar verði skorið úr um hvort liðið fylgir toppliðunum eftir.  Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum og hefst hann klukkan 19:15.

  • Keflavík og Fylkir hafa nú leikið 26 leik í efstu deild.  Keflavík hefur nú unnið 11 leiki, átta hefur lokið með jafntefli en Fylkir hefur unnið sjö leiki.  Markatalan er 33-36 fyrir Fylki.
     
  • Þetta var aðeins annar útisigurinn í 26 leikjum þessara félaga í efstu deild.  Hinn fyrri kom árið 2005 þegar Keflavík vann 1-0 sigur í Árbænum.  Fylkir hefur aldrei unnið útisigur gegn Keflavík í efstu deild.
       
  • Guðmundur og Jóhann Birnir skoruðu báðir sitt þriðja mark í deildinni í sumar og eru markahæstu leikmenn liðsins!  Jóhann skoraði sitt 21. mark í efstu deild og Guðmundur mark númer 70.  Hann nálgast nú óðum Steinar föður sinn sem er markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild með 72 mörk.  Guðmundur hefur skorað þessi 70 mörk í 193 leikjum en Steinari dugðu 139 leikir til að skora mörkin 72.
     
  • Ómar markvörður lék sinn 100. leik fyrir Keflavík í efstu deild.  Ekki varð hann eftirminnilegur en Ómar fór af velli á 20. mínútu.  Hann getur þó huggað sig við að hafa ekki fengið á sig mark í tímamótaleiknum en Lasse þurfti að byrja á því að hirða boltann úr netinu.  Ómar hefur einnig leikið 18 leiki í B-deild, 14 bikarleiki og 9 Evrópuleiki fyrir Keflavík.
      
  • Það þarf ekki að koma á óvart að mark Fylkis hafi komið úr vítaspyrnu en fimm af síðustu fimmtán mörkum liðsins gegn Keflavík hafa komið úr vítum.  Það er spurning hvort að okkar fólk fari að læra af reynslunni og stíga varlega til jarðar innan vítateigs í næstu leikjum gegn Fylki.
            

Fótbolti.net
Guðmundur Steinarsson leikmaður Keflvíkinga var ánægður eftir 2-1 sigur liðsins á Fylki í Árbænum í kvöld.

Fylkismenn leiddu lengi vel í leiknum en Guðmundur og Jóhann Birnir Guðmundsson náðu að skora undir lokin og tryggja Keflvíkingum sigur.
,,Þetta var mikil spenna í lokin. Þetta var góður tímapunktur til að jafna og við náðum að fylgja því eftir og ganga aðeins á lagið með því að ná sigrinum. Það var mikilvægt að ná sigri, það var svolítið langt síðan við unnum síðast," sagði Guðmundur við Fótbolta.net eftir leik.

Keflavík er eftir þennan sigur með 23 stig í fjórða sætinu, sex stigum á eftir efstu liðunum.
,,Við ætlum að komast eins ofarlega og hægt er. Það eru tvö lið sem eru hálfpartinn að stinga af og við viljum allavega vera á eftir þeim, það þýðir þá þriðja sætið."

Fréttablaðið / Vísir
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Fylkismenn ná forystu í leik í sumar en tapa henni niður. Þeir geta verið ósáttir en Keflvíkingar fögnuðu eðlilega vel og innilega í leikslok, enda hafði þolinmæði - með smá heppni líka - skilað þremur dýrmætum stigum í hús.
Það verður þó ekki tekið af Keflvíkingum að þeir spiluðu vel í síðari hálfleik og gerðu allt í þeirra valdi til að brjóta ísinn sem tókst svo á elleftu stundu.
Ómar 5 (Lasse 6), Guðjón 6 (Paul 6), Alen 6, Bjarni 5, Haraldur 6, Einar Orri 5,  Hólmar Örn 6, Jóhann Birnir 6, Magnús Sverrir 4, Guðmundur 7, Magnús Þórir 5 (Hörður -).

Morgunblaðið / Mbl.is
Fylkismenn mega vera svekktir með að fá ekkert út úr þessum leik og þeirra staða í deildinni er orðin alvarleg. Þeir eru aðeins þremur stigum á undan Grindavík og það lið er klárlega á uppleið. Auk þess eru þeir nú aðeins fjórum stigum á undan Selfossi sem hefur verið að bæta við sig leikmönnum og fékk byr í seglin í gærkvöldi.

Keflvíkingar eiga ennþá veika von um að blanda sér fyrir alvöru í baráttuna um titilinn. Willum Þór Þórsson og Þór Hinriksson hljóta hins vegar að velta því fyrir sér hvernig lífga megi upp á sóknarleikinn. Lið þeirra var skemmtilegasta lið landsins fyrir tveimur árum en á nú í basli með að skapa sér marktækifæri.
M: Alen, Haraldur, Hólmar Örn, Jóhann Birnir.

Víkurfréttir /VF.is
Allt stefndi í tapleik fyrir Keflavík því það var ekki fyrr en undir lok leiksins sem gæfan reyndist þeim hliðholl. Keflavík var sterkara liðið í seinni hálffleik en gekk illa að skapa sér marktækifæri. Það var síðan á 82. mínútu sem Keflvíkingar fengu vítaspyrnu eftir að Magnús Þórir Matthíasson var felldur inn í teig. Guðmundur Steinarsson tók vítaspyrnuna sem skilaði sér örygglega í netið. Stuttu seinna var hann aftur ferðinni þegar hann lagði upp mark með snilldarsendingu inn fyrir Fylkisvörnina. Þar tók Jóhann Birnir Guðmundsson við henni og kláraði sóknina með marki og tryggði Keflvíkingum fyrsta sigurinn síðan í lok júní. Keflvíkingar halda sér því enn í toppbaráttunni eftir þennan mikilvæga sigur. 


Pepsi-deild karla, Fylkisvöllur, 5. ágúst 2010
Keflavík 2
(Guðmundur Steinarsson víti 81., Jóhann Birnir Guðmundsson 86.)
Fylkir 1 (Albert Brynjar Ingason víti 21.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson (Lasse Jörgensen 20.), Guðjón Árni Antoníusson (Paul McShane 33.), Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Þórir Matthíasson (Hörður Sveinsson  90.).
Varamenn: Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Þór Magnússon, Bojan Stefán Ljubicic, Haukur Ingi Guðnason.
Gul spjöld: Lasse Jörgensen (23.), Jóhann Birnir Guðmundsson (48.).

Dómari: Jóhannes Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Sverrir Gunnar Pálmason.
Eftirlitsdómari: Björn Guðbjörnsson.
Áhorfendur: 856.




Á þessari skemmtilegu mynd Eyglóar Eyjólfsdóttur sést þegar Jóhann Birnir 
skorar sigurmarkið með því að renna boltanum framhjá Fjalari og í netið.