Fréttir

Sigur í fyrsta heimaleiknum
Knattspyrna | 2. júní 2012

Sigur í fyrsta heimaleiknum

Keflavík vann 2-0 sigur á Tindastól í fyrsta heimaleik sínum í 1. deild kvenna þetta sumarið.  Keflavík hafði þó nokkra yfirburði allan leikinn en gekk erfiðlega að skapa sér færi en þétt vörn gestanna og góður markvörður sáu til þess að staðan var markalaus fram að miðjum seinni hálfleik. 

Það var ekki fyrr en á 65. mínútu að Dagmar Þráinsdóttir braut ísinn með góðu marki eftir stífa pressu okkar liðs.  Dagmar fékk þá boltann við vítateigslínuna, lék skemmtilega á varnarmenn og skoraði með góðu skoti.   Áfram hélt sókn Keflavíkur og á 80. mínútu fékk Dagmar boltann á svipuðum stað og í markinu en að þessu sinni var brotið á henni og vítaspyrna dæmd.  Það var fyrirliðinn Karitas Ingimarsdóttir sem tók spyrnuna og skoraði af öryggi.  Undir lokin fékk Keflavíkurliðið tvö dauðafæri en markvörður Tindastóls varði vel í bæði skiptin, fyrst gott skot frá Dagmar eftir að varamennirnir Ólína Ýr og Sigríður höfðu leikið skemmtilega í gegnum vörnina og síðan þegar Fanney fékk boltann í markteignum.

Keflavíkurstelpurnar börðust allar vel fyrir þessum sigri.  Þær voru þolinmóðar og þyngdu sóknina þegar á leið og náðu að skapa sér betri færi þegar á leið leikinn.  Dagmar var virkilega ógnandi í seinni hálfleik og skoraði fyrsta mark liðsins í sumar.  Miðjan vann vel og náði betur saman þegar á leið.  Góður þolinmæðissigur hjá stelpunum.

Eftir leikinn er Keflavík með 4 stig eftir tvo leiki.  Næst á dagskránni er svo útileikur gegn Sindra í bikarkeppninni en hann verður þriðjudaginn 5. júní kl. 20:00 á Höfn.  Næsti leikur er í deildinni útileikur gegn Álftanesi á Bessastaðavelli laugardaginn 9. júní kl. 14:00.

  • Þetta var fyrsti leikur Keflavíkur og Tindastóls á Íslandsmóti í meistaraflokki kvenna.
             
  • Dagmar Þráinsdóttir skoraði fjórða deildarmark sitt fyrir Keflavík í sínum 14. leik.  Karitas Ingimarsdóttir skoraði sjötta markið sitt í sínum 47. deildarleik fyrir Keflavík.
     
  • Hulda Matthíasdótttir lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk á Íslandsmóti.

 
1. deild kvenna, Nettó-völlurinn, 1. júní 2012
Keflavík 2
(Dagmar Þráinsdóttir 65., Karitas Ingimarsdóttir víti 80.)
Tindastóll 0

Keflavík: Anna Rún Jóhannsdóttir, Anna Helga Ólafsdóttir (Hulda Matthíasdóttir 62.), Eydís Ösp Haraldsdóttir, Karitas Ingimarsdóttir fyrirliði, Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir, Dagmar Þráinsdóttir, Andrea Ósk Frímannsdóttir, Fanney Þórunn Kristinsdóttir, Íris Björk Rúnarsdóttir (Ólína Ýr Björnsdóttir 62.), Jóna Kristbjörg Stefánsdóttir (Sigurrós Eir Guðmundsdóttir 46.), Hafdís Mjöll Pálmadóttir (Sigríður Sigurðardóttir 46.).
Varamenn: Margrét Ingþórsdóttir.
Gult spjald: Andrea Ósk Frímannsdóttir (61.).

Dómari: Guðrún Fema Ólafsdóttir.
Aðstoðardómarar: Ægir Magnússon og Sigurður Schram.
 



Byrjunarlið Keflavíkur í leiknum.


Karitas skorar úr vítinu og staðan orðin 2-0.


Andrea Ósk og Fanney Þórunn voru sterkar á miðjunni.