Sigur í Laugardalnum og 2. umferðin næst
Keflavíkuliðið er komið í 2. umferð forkeppni Evrópukeppni félagsliða eftir 2-0 sigur á Etzella frá Lúxemborg á Laugardalsvelli í kvöld. Dregið verður í næstu umferð keppninnar á hádegi á morgun, föstudag. Þar er liðunum skipt í þrjú svæði og verðum við í Norðursvæðinu. m.a. með liðum frá Norðurlöndunum.
Leikurinn í kvöld var ekki mikið fyrir augað og úrslitin í fyrri leiknum settu eðlilega mark sitt á leikinn. Gestirnir byrjuðu af krafti og léku með þrjá framherja. Þeir reyndu að sækja á okkar menn en höfðu ekki árangur sem erfiði. Okkar menn áttu ágæta kafla en náðu aldrei tökum á leiknum og skorti einbeitingu. Það var ekki fyrr en á síðasta stundarfjórðungi leiksins sem mörkin litu dagsins ljós. Um fimmtán mínútum fyrir leikslok skoraði Hörður sitt 5. mark í leikjunum tveimur gegn Etzella. Eftir hornspyrnu frá vinstri hreinsuðu gestirnir frá og sóknin virtist vera að renna út í sandinn. En Jónas kom boltanum aftur fyrir markið og eftir baráttu í vítateignum þar sem Issa gekk hart fram og hélt boltanum í leik fékk Hörður boltann við markteigshornið og sendi hann örugglega í netið. Seinna markið kom svo um fimm mínútum fyrir leikslok. Hörður brunaði þá upp völlinn og renndi boltanum inn fyrir vörnina á Gunnar Hilmar sem var nýkominn inn á sem varamaður. Hann var þessu mikilvæga sekúndubroti á undan markverðinum og renndi boltanum undir hann og í markið. Okkar menn hefðu með smáheppni átt að vera búnir að skora fyrr í leiknum. Sérstaklega var Guðmundur óheppinn en í fyrri hálfleik átti hann skalla í slána sem Hörður fylgdi á eftir og skaut í stöng. Í seinni hálfleiknum átti Guðmundur svo gott skot úr aukaspyrnu sem markvörðurinn varði vel í horn. Og milli marka Keflavíkurliðsins vann Guðmundur boltann laglega af aftasta varnarmanni og vippaði yfir markvörðinn af um 30 metra færi. Skemmtileg tilraun en því miður fór boltinn rétt framhjá stönginni. Guðjón fékk sitt annað gula spjald undir lok leiksins og það er ljóst að hann getur ekki leikið næsta leik Keflavíkur í keppninni sem er mjög miður, bæði fyrir hann og liðið.
Laugardalsvöllur, 28. júlí 2005
Keflavík 2 (Hörður Sveinsson 76., Gunnar Hilmar Kristinsson 84.)
FC Etzella 0
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Michael Johansson, Baldur Sigurðsson (Gunnar Hilmar Kristinsson 79.), Gestur Gylfason - Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson (Atli Rúnar Hólmbergsson 84.), Bjarni Sæmundsson (Issa Abdulkadir 58.), Branko Milicevic - Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Einar Orri Einarsson, Sigþór Snorrason, Stefán Örn Arnarson
Gult spjald: Guðjón Antoníusson (33.)
Rautt spjald: Guðjón Antoníusson (78.)
Dómari: Paulius Malzinskas
Aðstoðardómarar: Arturas Pipiras og Saulius Dirda
4. dómari: Audrius Zuta
Áhorfendur: 885
Hörður skorar fyrra markið og leikmenn Etzella væntanlega orðnir frekar þreyttir á manninum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)