Fréttir

Knattspyrna | 6. júlí 2005

Sigur í toppslag 3. flokks kvenna

Á mánudaginn tók 3. flokkur kvenna á móti liði Vals í toppslag A-deildar og var leikið á Iðavöllum.  Það var augljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir í þessari baráttu.  Leikurinn fór nokkuð mikið fram á miðju vallarinns, liðin reyndu að ná þar yfirhöndinni til að geta stjórnað leiknum.  Liðin sóttu nokkuð á víxl en án þess að skapa sér nokkur færi.  Valur braut þó ísinn á 23. mínútu þegar þær fengu hornspyrnu.  Eftir klafs í teignum hrökk knötturinn út til Bergdísar sem skaut í gegnum pakkann og í netið.  Anna markvörður sá knöttinn seint og náði því ekki til hans, 0-1 Val í hag og fögnuðu þær vel.  Það var þó stutt kátína því á 25. mínútu var réttilega dæmd vítaspyrna á Val.  Helena Rós tók spyrnuna og afgreiddi hana af miklu öryggi neðst í vinstra hornið gjörsamlega óverjandi fyrir markvörð Vals.  Áfram héldu liðin að sækja og var Keflavík mun nær því að bæta við marki, m.a. átti Helena gott skot á markið sem nánast sleikti utanverða stöngina.  Þá vildu þær fá dæmt víti þegar boltinn fór í hönd Valsara eftir skot frá Evu og ,var nokkuð til í því.  En lengra komust liðin ekki fyrir hlé og staðan 1-1.

Það voru ekki liðnar nema átta mínútur af seinni hálfleik þegar Birna Marín kom Keflavík yfir 2-1 með glæsilegu marki.  Eftir gott spil á miðjunni barst boltinn til Hildar sem sendi hann strax út til hægri á Birnu.  Hún var ekkert að tvínóna með boltann heldur afgreiddi hann í fyrsta og knötturinn söng upp í horninu hægra megin án þess að markvörður Vals ætti möguleika í hann.  Nú tóku við erfiðar mínútur og Valur fór að sækja nokkuð stíft á okkur og við í leiðinni að detta aftar á völlinn.  Stelpurnar voru of stressaðar á boltann, voru að losa hann alltof fljótt frá sér og fyrir bragðið datt allt spil niður.  Á þessum fimmtán mínútna kafla vorum við heppnar að Valur náði ekki að jafna því færin fengu þær.  Ýmist náði Anna að verja eða taka þær svo á taugum að þær skutu yfir eða framhjá.  Stelpurnar náðu þó að klóra sig út úr þessu og koma sínum leik í rétt horf en lið Vals fór að pirrast yfir því að ná ekki að jafna leikinn.  Það var bara gott mál, við réðum ferðinni á meðan.  Sex mínútum fyrir leikslok innsigluðu svo stelpurnar góðan leik sinn með því að skora þriðja markið.  Birna tók þá hornspyrnu og eftir mikið klafs í teignum náð Eva að pota kettinum yfir marklínuna og tryggja sigurinn, 3-1 Keflavík í vil.

Stelpurnar sýndu virkilega góða baráttu í þessum leik og leyfðu gestunum aldrei að spila sinn bolta, fyrir utan smá kafla í seinni hálfleik.  Eins sýndu þær að það er engin tilviljun að þær eru efstar í A-deild því að það er hægt að fara langt á baráttunni, leikgleðinni og að spila undir merki Keflavíkur.

3. flokkur, Keflavík - Valur: 3-1 (Helena Rós Þórólfsdóttir, Birna Marín Aðalsteinsdóttir, Eva Kristinsdóttir)
Keflavík:
 Anna, Bergþóra, Fanney, Helga, Rebekka, Eva, Hildur, Helena, Birna, Karen S., Andrea, Karen H., Jóna, Sigrún, Kristín.


Myndir: Jón Örvar Arason


Andrea lítur um öxl.


Helena skorar úr víti.


Og markinu fagnað.


Marki Birnu fagnað.


Enn ástæða til að fagna.


... og fagna.


Hvar er boltinn?