Sigur og tap hjá 2. flokki
Um helgina lagði lið Keflavíkur/Njarðvíkur í 2. flokki land undir fót, hélt til höfuðstaðar Norðurlands og lék þar tvo leiki við heimaliðin.
Á laugardag var leikið við KA og þurftu strákarnir að sætta sig við 0-1 tap í hörkuleik. Bæði liðin fengu sín færi en KA-menn voru ívið sterkari og tókst að tryggja sér sigur.
Á sunnudeginum var komið að leik við Þór. Ferðalagið norður og leikurinn daginn áður sat nokkuð í mönnum og var því gripið til þess ráðs að gera nokkrar breytingar á byrjunarliðinu en alls tóku 17 leikmenn þátt í leikjunum tveimur. Gegn Þór snerust úrslitin við og við fórum með 1-0 sigur af hólmi. Það var Davíð Hallgrímsson sem skoraði eina mark leiksins. Þórsarar sóttu stíft þegar líða fór á leikinn en vörnin var örugg allan tímann með þá Harald Haraldsson og Árna Ármannsson fremsta í flokki.
Útkoman úr leikjunum verður að teljast ásættanleg og liðið er nú komið með tvo sigra og eitt tap eftir þrjá útileiki. Fyrsti heimaleikur 2. flokks verður svo gegn Leikni 9. júní.