Fréttir

Knattspyrna | 5. mars 2007

Sigur og tap í Lengjubikarnum

Strákarnir okkar unnu 2-1 sigur á Eyjamönnum í Lengjubikarnum á laugardal en leikurinn fór fram í Reykjaneshöllinni.  Það var Svíinn Marco Kotilainen sem kom okkar mönnum yfir snemma leiks.  Marco skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík með hörkuskoti.  Í byrjun seinni hálfleiks skoraði Davíð Örn Hallgrímsson síðan gott mark.  Englendingurinn Matt Garner minnkaði muninn um miðjan hálfleikinn en lengra komust gestirnir ekki.  Keflavík er því með 6 stig eftir þrjá leiki í Lengjubikarnum.

Það gekk ekki eins vel hjá stelpunum sem töpuðu 1-4 fyrir Val í Egilshöllinni á föstudaginn.  Þetta var fyrsti leikur liðsins í Lengjubikarnum í ár.  Reyndar kom Guðný Þórðardóttir okkar liði yfir en Valsstúlkur svöruðu með fjórum mörkum.  Margrét Lára Viðarsdóttir og Katrín Jónsdóttir skoruðu tvö mörk hvor.

Næsti leikur hjá körlunum er gegn KR föstudaginn 16. mars en kvennaliðið leikur næst gegn Breiðabliki sunnudaginn 18. mars.  Báðir leikirnir fara fram í Reykjaneshöllinni.


Marco Kotilainen skoraði gegn ÍBV en hann er til vinstri á myndinni.
(Mynd: Jón Örvar Arason)