Sigurbergur og félagar sigruðu í Sviss
Sigurbergur Bjarnason og félagar í U-15 ára landsliði Íslands sigruðu Moldóva í gær 3-1 í úrslitaleik um sæti á Ólympíuleika ungmenna. Þeir lögðu Finnland 2-0 á laugardaginn en með þessari frammistöðu eru þeir búnir að tryggja liðinu sæti á Ólympíluleikunum sem fara fram í Nanjing í Kína 16.-28. ágúst 2014.
Sigurbergur sem spilaði í stöðu hægri bakvarðar kom inn á og lék síðustu 30 mínúturnar á móti Moldóvu og stóð sig vel.
Þjálfari liðsins er Keflvíkingurinn Freyr Sverrisson og það má með sanni segja að hann sé að gera góða hluti með liðið.
Samkvæmt heimasíðu KSÍ var sigur Íslands öruggur og sanngjarn. Á 12. mínútu kom Kristófer Ingi Kristinsson strákunum yfir. Grindvíkingurinn Hilmar Andrew McShane bætti við öðru marki á 23. mínútu en þannig stóðu leikar þegar flautað var til leikhlés. Það liðu svo aðeins tvær mínútur af síðari hálfleik áður en þriðja markið hafði litið dagsins ljós. Þar var á ferðinni Áki Sölvason en Moldóvar minnkuðu muninn á 57. mínútu og þar við sat, öruggur íslenskur sigur og sæti á Ólympíuleikum ungmenna í höfn segir á heimasíðu KSÍ.
Myndin með fréttinni er af vef UEFA en á henni fagnar Freyr þjálfari ásamt leikmönnum íslenska liðsins. Sigurbergur er nr. 16.