Fréttir

Knattspyrna | 25. september 2007

Sigurbergur yngsti leikmaður í efstu deild

Sigurbergur Elísson, leikmaður 3. flokks Keflavíkur, kom inn á sem varamaður gegn Fylki í Landsbankadeildinni á sunnudag og varð þar með yngsti leikmaður í efstu deild karla frá upphafi.  Sigurbergur er fæddur 10. júní 1992 og var því aðeins 15 ára og 105 daga gamall þennan dag.  Hann kom inn á fyrir Marco Kotilainen á 60. mínútu og stóð sig mjög vel.  Vonandi eigum við eftir að sjá mikið frá þessum unga og góða leikmanni.

Þess má geta að Sigurbergur er sonur hins kunna þjálfara Elís Kristjánssonar sem hefur starfað fyrir Keflavík um árabil.  Hann hefur gert góða hluti með yngri flokka Keflavíkur, bæði í pilta- og stúlknaflokki og er einnig aðstoðarmaður Salih Heimir Porca hjá meistaraflokki.kvenna.

Við óskum Sigurbergi til hamingju með áfangann.

En það eru fleiri ungir leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki þessa dagana því Árni Freyr Ásgeirsson var í leikmannahópnum í leikjunum gegn Fylki og Víkingum.  Árni Freyr kemur inn sem markvörður og Sigurbergur sem vængmaður eða framherji.  Báðir koma þeir inn vegna meiðsla og leikbanna stóru strákanna.  Árni Freyr og Sigurbergur eru strákar sem hafa staðið sig frábærlega í 3. flokknum í sumar undir stjórn Zorans Daníels Ljubicic og hafa nú náð skrefinu stóra hjá Kristjáni þjálfara.

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir


Sigurbergur vígalegur á Fylkisvelli.


Lokaskiparnirnar frá þjálfaranum.


Árni Freyr og Sigurbergur.