Fréttir

Sigurður fékk gullmerki
Knattspyrna | 8. desember 2014

Sigurður fékk gullmerki

Sigurður Björgvinsson fékk gullmerki Knattspyrnudeildar þegar heiðursmerki deildarinnar voru veitt í jólaboði deildarinnar á dögunum.  Knattspyrnudeild hof að veita heiðursmerki árið 2010 en tveimur árum seinna var sett reglugerð um veitingu merkjanna.  Þar kemur fram að þeir sem hafa leikið 200 leiki fyrir Keflavík á Íslandsmóti skuli fá gullmerki.  Fyrr á árinu fengu þeir sem höfðu náð þeim áfanga merki en þá átti Sigurður ekki heimangengt og fékk því gullmerkið afhent núna.

Sigurður er auðvitað Keflvíkingur og lék með yngri flokkum félagsins.  Hann hof að leika með meistaraflokki árið 1976 og lék sinn fyrsta leik í efstu deild í 6-1 sigurleik gegn FH.  Sigurður lék eitt ár með Örgryte í Svíþjóð og með KR í þrjú tímabil og hann lauk síðan ferlinum með Reyni í Sandgerði.  Alls lék hann 267 leiki í efstu deild og er fjórði leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi.  Sigurður lék 214 leki í efstu deild fyrir Keflavík og er þar næstleikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi.  Alls lék hann um 300 leiki fyrir Keflavík í öllum keppnum.

Sigurður þjálfaði Keflavíkurliðið ásamt Gunnari Oddssyni árin 1997-1999.  Þeir gerðu liðið að bikarmeisturum árið 1997.

Sigurður varð fyrstur til að leika með öllum landsliðum Íslands, drengja-, unglinga-, U-21 og A-landsliði.  Hann lék þrjá landsleiki, einn leik með U-21 árs liðinu, sjö U-18 ára og þrjá leiki með U-16 ára.  Einn A-landsleikja Sigurðar var 9-0 sigur á Færeyjum í Keflavík en það er enn stærsti sigur íslenska landsliðsins.  Þess má geta að Sigurður var einnig í unglingalandsliðinu í handbolta og var valinn besti varnarmaðurinn á Norðurlandamóti unglingalandsliða árið 1977.  Í því liði voru handboltakempurnar Sigurður Sveinsson og Atli Hilmarsson og Einar Vilhjálmsson spjótkastari en þjálfari var Jóhann Ingi Gunnarsson.

Sigurður hefur lengi verið viðloðandi íþróttirnar en hann er eigandi verslunarinn K-Sport í Keflavík.  Þar hefur hann m.a. selt búninga og annan íþróttabúnað fyrir Keflavík og hefur Knattspyrnudeildin átt gott samstarf við Sigurð.

Við óskum Sigurði til hamingju með gullmerkið.

Mynd: Jón Örvar Arason