Fréttir

Knattspyrna | 10. desember 2011

Sigurður fékk silfurmerkið

Á  jólahófi Knattspyrnudeildar í vikunni var Sigurður Björgvinsson sæmdur silfurmerki deildarinnar.  Sigurður er næst leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi og þjálfaði bikarmeistaralið félagsins árið 1997.  Gull- og silfurmerki Knattspyrnudeildar voru fyrst veitt á síðasta ári og þá var ákveðið að leikmenn sem leika 200 meistaraflokksleiki fyrir félagið fái silfurmerkið.

Sigurður er fæddur árið 1959 og lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 1975, þá 16 ára gamall.  Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild árið 1976 en það var 6-1 sigur á FH í fyrstu umferð Íslandsmótsins.  Sigurður varð fljótlega fastamaður í liðinu og missti afar sjaldan af leik.  Þess má geta að Sigurður var einnig liðtækur handknattleiksmaður og lék með íslenska unglingalandsliðinu.  Hann var m.a. valinn besti varnarmaðurinn á Norðurlandamóti unglingalandsliða árið 1977 en í liðinu voru m.a. Sigurður Sveinsson, Atli Hilmarsson og Einar Vilhjálmsson spjótkastari en þjálfari var Jóhann Ingi Gunnarsson.

Sigurður lék með Örgryte í Svíþjóð árið 1980 en sneri síðan aftur til Keflavíkur.  Hann lék svo með KR frá 1989 til 1991 og skipti svo aftur í Keflavík.  Sigurður lauk keppnisferlinum með Reyni í Sandgerði árið 1995.  Sigurður þjálfaði Keflavíkurliðið ásamt Gunnari Oddssyni 1997-1999 og liðið varð bikarmeistari undir þeirra stjórn árið 1997.  Hann lék alls 214 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og var leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi þar til Guðmundur Steinarsson sló metið í sumar.  Sigurður lék alls um 300 opinbera leiki fyrir Keflavík auk æfingaleikja og leikja í Litlu bikarkeppninni.  Hann er enn þriðji leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi með 267 leiki fyrir Keflavík og KR.  Fyrir ofan eru Birkir Kristinsson og annar Keflvíkingur, Gunnar Oddsson.

Sigurður lék þrjá A-landsleiki en meðal þeirra var 9-0 sigur á Færeyingum á Keflavíkurvelli sem er stærsti sigur íslenska landsliðsins frá upphafi.  Sigurður lék einnig með öllum yngri landsliðunum og varð fyrstur allra til að leika með drengja-, unglinga-, U-21 árs og A-landsliði Íslands.

Þó að knattspyrnu- og þjálfaraferlinum sé lokið er Sigurður enn viðloðandi íþróttirnar en eins og flestir ættu að vita hefur hann um árabil rekið verslunina K-Sport í Keflavík.

Við óskum Sigurði til hamingju með viðurkenninguna.


Þorsteinn Magnússon, formaður Knattspyrnudeildar, afhendir Sigurði silfurmerkið.