Sindri - Keflavík á þriðjudag kl. 20:00
Kvennalið Keflavíkur hefur keppni í Borgunarbikarnum í 2. umferð keppninnar og leikur gegn Sindra á Höfn þriðjudaginn 5. júní kl. 20:00. Sigurliðið fer áfram í 16 liða úrslit keppninnar þar sem liðin úr úrvalsdeildinni mæta til leiks. Dómari leiksins verður Húnbogi Sólon Gunnþórsson og aðstoðardómarar þeir Þorvarður Sigurbjörnsson og Roy Steven Þorsteinn Hearn.
Þetta verður fyrsti leikur Keflavíkur og Sindra í bikarkeppni kvenna. Liðin hafa leikið tvo leiki á Íslandsmóti en það var síðasta sumar þegar þau voru í sama riðli í 1. deildinni. Keflavík vann þá báða leikina, 2-0 á útivelli og 7-1 á heimavelli. Í ár leika liðin í sitt hvorum riðlinum í deildinni. Sindrastúlkur hafa unnið tvo leiki en tapað einum í A-riðli en Keflavík hefur leikið tvo leiki í B-riðlinum, gert eitt jafntefli og unnið einn.