Sindri Kristinn æfði með landsliðinu
Það fór aldrei svo að við Keflvíkingar ættum ekki leikmann með íslenska landsliðinu sem leikur gegn Eistlandi á miðvikudag. Landsliðið æfði í Garðinum á sunnudag og tók Sindri Kristinn Ólafsson þátt í æfingunni. Fram kemur í frétt á fótbolti.net að tveir markverðir landsliðsins hafi verið uppteknir með félagsliðum sínum og því hafi vantað markvörð. Sindri Kristinn var því fenginn til að hlaupa í skarðið.
Sindri Kristinn er 17 ára og leikur með 2. flokki Keflavíkur/Njarðvíkur. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann nokkrum sinnum verið í leikmannahópi í Pepsi-deildinni i sumar og einnig í fyrra. Sindri Kristinn hefur þrjá leiki með U-17 ára landsliði Íslands og hefur nú heldur betur bætt í bankann varðandi landsliðsreynslu.
Myndin að neðan er fengin að láni frá fótbolti.net og sýnir Sindra Kristinn og Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörð. Myndina tók Hafliði Breiðfjörð.