Fréttir

Sindri Kristinn Ólafsson framlengir við Keflavík
Knattspyrna | 20. desember 2018

Sindri Kristinn Ólafsson framlengir við Keflavík

 
 
Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Keflavíkur. Sindri sem er uppalinn í Keflavík hefur verið aðalmarkvörður liðsins síðustu tvö ár. Sindri sem er 21 árs og á að baki 17 leiki með yngri landsliðum Íslands þótti standa sig mjög vel í Pepsi deildinni á síðasta ári þrátt fyrir brösótt gengi liðsins. 
 
„Við erum gríðarlega ánægðir með að Sindri hafi ákveðið að taka slaginn með okkur áfram“ sagði Sigurður Garðarsson formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur. „Við viljum byggja liðið upp á heimamönnum og þessum strákum sem hafa verið með okkur í gegnum allt starfið í bland við efnilega unga leikmenn af öllu landinu sem eru klárir í að takast á við þetta verkefni með okkur og sjá tækifærin í þeirri umgjörð sem við erum með. Hvort sem um er að ræða þjálfara, æfingaaðstöðu eða annað“.
 
Sindri Kristinn Ólafsson: „Ég er mjög spenntur fyrir verkefninu sem er framundan hjá Keflavík. Við vorum í basli í sumar og féllum um deild en nú er mikilvægt að allir leggist á eitt og komi Keflavík aftur á þann stað sem það á heima. Við erum með spennandi þjálfarateymi og Janko er frábær viðbót frá því í fyrra. Ómar Jóhanns markmannsþjálfari hefur svo verið mjög duglegur að leiðbeina mér og ég er sannfærður um að ég muni bæta mig mikið á næstu árum.“