Fréttir

Sjö fengu silfurmerki
Knattspyrna | 10. desember 2014

Sjö fengu silfurmerki

Sjö leikmönnum Keflavíkur var veitt silfurmerki Knattspyrnudeildar þegar heiðursmerki voru veitt í jólaboði deildarinnar á dögunum.  Knattspyrnudeild hóf að veita heiðursmerki árið 2010 en tveimur árum seinna var sett reglugerð um veitingu merkjanna.  Þar segir að þeir sem hafa leikið 100 leiki fyrir Keflavík á Íslandsmóti skuli fá silfurmerki.  Nokkur hópur leikmanna hefur náð þessum áfanga og var ákveðið að byrja á því að veita sjö núverandi leikmönnum liðsins merkið.  Þeir sem eiga eftir að fá merki fá þau svo afhent á næsta ári.

Einar Orri Einarsson er 25 ára og komst í 100 leikja klúbbinn í sumar.  Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 2005 og hefur leikið 109 leiki í Íslandsmóti, alla í efstu deild.  Hann hefur alls leikið 167 leiki með meistaraflokki þegar bikarleiki, leikir í Evrópukeppnum og leikir í deildarbikar eru teknir með.

Haraldur Freyr Guðmundsson er fyrirliði Keflavíkur en hann er 32 ára.  Hann hóf að leika með meistaraflokki árið 1999 og er kominn með 166 leiki í Íslandsmótinu.  Alls hefur hann leikið 257 leiki fyrir Keflavík.

Guðjón Árni Antoníusson er nýkominn aftur til Keflavíkur frá FH.  Hann er 31 árs gamall og lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 2002.  Hann hefur leikið 170 leiki í Íslandsmóti og 271 leiki alls.

Hólmar Örn Rúnarsson sneri einnig nýlega aftur eftir nokkura ára dvöl í Hafnarfirði.  Hólmar Örn er 33 ára en hann á einmitt afmæli í dag, 10. desember.  Hann lék sinn fyrsta leik meistaraflokki árið 2000.  Hann á að baki 162 leiki í Íslandsmóti og 256 leiki alls fyrir Keflavík.

Hörður Sveinsson er 31 árs og spilaði fyrst með meistaraflokki árið 2001.  Hann er nú kominn með 165 leiki í Íslandsmóti og hefur leikið 234 leiki alls.

Jóhann Birnir Guðmundsson er 37 ára gamall.  Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 1994 og hefur alls leikið 160 leiki í Íslandsmóti, alla í efstu deild.  Hann á að baki 236 leiki fyrir Keflavík í öllum keppnum.

Ómar Jóhannsson er 33 ára og spilaði fyrst með meistaraflokki árið 2001.  Hann hefur leikið 180 leiki í Íslandsmótinu og alls 271 leik.  Hann lék ekki með Keflavík í sumar vegna meiðsla.

Við óskum piltunum til hamingju með viðurkenningarnar.

Myndirnar með fréttinni tók Jón Örvar Arason.