Sjötti pistill frá Spáni - Jafnt
Oliva Nova á Spáni, dagur sjö
Sunnudagur og engin morgunæfing. Sól, sól skín á mig og allir notuðu tímann í sólina. Félagarnir Sigurður og Garðar notuðu tímann vel og tóku viðtal við leikmennina við sundlaugarbakkann. Einnig dekraði Falur sjúkra við leikmenn í nuddinu og gerði menn klára fyrir síðdegisæfinguna. Staðan hjá ungum og gömlum er 6-6 og spurningin er hvað Willum gerir í dag... hann hlýtur að finna upp á einhverju góðu. Svo er Gummapunktur í kvöld svo að þeir ungu geta klárað þetta í kvöld. Það yrði saga til næsta bæjar.
Síðdegisæfingin var góð og ekki við öðru að búast frá þeim félögum Willum, Þór og Rajko. Hörður og Hólmar Örn ekki með í dag vegna smávægilegra meiðsla. Þeir notuðu samt tímann vel og bjuggu til þennan líka flotta golfvöll. Jú, æfingin endaði nefnilega á fótboltagolfi. Enn sigra ungir og eru með 7-6 forystu. Flottir taktar sáust í golfinu og Magnús Þór brilleraði fyrir unga og Bjarni Hólm einnig sterkur og hefur greinilega æft þetta.
Í kvöld var svo Gummapunktur spurningakeppni sem var æsispennandi. Gummi Steinars stjórnaði henni enda bjó hann þessa spurningakeppni til. Bæði lið stóðu sig vel, og ótrúlegt hvað menn vissu um músik og myndir. En þeir gömlu höfðu þetta á endanum enda með Jóhann Birni innanborðs. Staðan er því 7-7 þegar ein æfing er eftir. Spennan verður því til staðar í fyrramálið.
Þessi vika er búin að vera fljót að líða. Ein æfing eftir á morgun og heim eftir hádegið. Allir hlakka til að koma heim og vonandi komum við með góða veðrið með okkur.
Kær kveðja,
Jón Örvar