Skemmtileg stund i Frostaskjólinu
Það var söguleg stund í Frostaskjólinu þegar KR og Keflavík mættust þar í Pepsi-deildinni. Þar voru bræðurnir Fannar Orri og Jónas Guðni Sævarsson báðir mættir til leiks en reyndar hvor í sínu liðinu. Fannar Orri var í byrjunarliði Keflavíkur og lék sinn fyrsta leik í sumar. Jónas Guðni var hins vegar með KR en ekki þarf að taka fram að hann er fyrrverandi leikmaður okkar og auðvitað Keflvíkingur í húð og hár. Jónas Guðni lék með yngri flokkum Keflavíkur og síðan með meistaraflokki á árunum 2002-2007. Hann lék 92 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og varð bikarmeistari með liðinu 2004 og 2006.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem bræður úr Keflavík eru báðum megin við línuna í leik Keflavíkur í efstu deild. Eftir því sem við munum best gerðist það síðast árið 2008 í leik gegn Þrótti en þá var Adolf Sveinsson í liði Þróttar en Hörður bróðir hans með Keflavík.
Það var Jón Örvar sem smellti af myndinni af bræðrunum í Vesturbænum.