Slæmt tap á heimavelli
Keflavík náði ekki að fylgja á eftir góðum sigri í síðustu umferð þegar liðið tapaði fyrir Þór í mikilvægum leik í 9. umferð Pepsi-deildarinnar. Eftir jafna byrjun á Nettó-vellinum náðu gestirnir forystu þegar Chukwudi Chijindu skoraði um miðjan fyrri hálfleikinn og Jóhann Helgi Hannesson bætti öðru marki við í lok hálfleiksins. Eftir það var á brattann að sækja hjá okkar mönnum og Sveinn Elías Jónsson bætti við þriðja marki Þórsara skömmu fyrir leikslok. Arnór Ingvi Traustason lagaði stöðuna í blálokin en lokatölur 3-1 fyrir Þór og mikilvæg stig í súginn hjá okkar liði.
Eftir leikinn er Keflavík í 9. sæti deildarinnar með sjö stig. Næsti leikur er heimaleikur gegn Breiðabliki á Nettó-vellinum sunnudaginn 14. júlí kl. 16:00.
-
Þetta var 25. leikur Keflavíkur og Þórs í efstu deild. Þór hefur hefur nú unnið sjö leiki en Keflavík níu og níu sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 44-39 fyrir Keflavík.
-
Þetta var þriðja tap Keflavíkur gegn Þór á heimavelli í 13 leikjum. Keflavík hefur unnið sjö leikjanna en þremur hefur lokið með jafntefli. Þór hafði síðast unnið á efstu deild í Keflavík árið 1986 en síðan hafði Keflavík ekki tapað í sex leikjum gegn Þórsurum á heimavelli.
-
Arnór Ingvi Traustason gerði þriðja mark sitt í deildinni í sumar. Markið var 9. mark hans í efstu deild í 42 leikjum.
-
Magnús Þór Magnússon og Halldór Kristinn Hallórsson urðu báðir að fara af leikvelli í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Einar Orri Einarsson kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og lék sinn fyrsta leik í sumar en hann hefur verið að berjast við erfið meiðsli í vetur og vor.
-
Fyrir leikinn afhenti Þorsteinn Magnússon formaður Knattspyrnudeildar Kristjáni Guðmundssyni blómvönd í tilefni þess að Kristján var að stjórna Keflavík í 100. sinn í efstu deild. Hann er fyrsti þjálfarinn í sögu félagsins til að ná þeim áfanga. Þetta var 28. tapleikur Kristjáns, hann hefur hrósað sigri í 41 leik en 31 leikjanna hefur lokið með jafntefli.