Slakt gegn Haukum; Gummi byrjar vel
Nú um helgina lék liðið æfingaleik í Kórnum gegn Haukum úr Hafnarfirði. Lokatölur urðu 3-0, Haukum í vil en staðan í hálfleik var 1-0. Keflavíkurliðið lék afspyrnuilla í leiknum og til að mynda skapaði liðið sér aðeins tvö marktækifæri allan leikinn og komu þau bæði í seinni hálfleik. Leikmönnum gekk illa að leika knettinum á milli sín jafnframt því að vera sem höfuðlaus her í varnarleiknum. Ber að varast að vera með yfirlýsingar eftir þennan leik en betur má ef duga skal...
Keflavík: Magnús Þormar, Sigurður, Tómas, Jón Gunnar, Brynjar, Símun, Hólmar, Ingvi, Haukur, Jóhann, Hörður. Þessir komu síðan inn á: Einar Orri, Magnús Þór, Bessi, Sigurbergur, Högni.
Einn Keflvíkingur átti þó góða helgi en Guðmundur nokkur Steinarsson skoraði í sínum fyrsta leik með FC Vaduz í svissnesku deildinni. Guðmundur skoraði í upphafi leiks gegn FC Aarau með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en það er greinilegt að Gummi hefur munað að taka skotskóna með sér til Lichtenstein.
Heimasíða FC Vaduz
Guðmundur á fleygiferð í leiknum um helgina.