Sparisjóðsmót 5. flokks
Knattspyrnudeildir Keflavíkur og Njarðvíkur halda umfangsmikið knattspyrnumót í Reykjaneshöll dagana 19. – 20. nóvember í samvinnu við Sparisjóðinn í Keflavík.
Þetta mót er nú haldið þriðja árið í röð og munu 10 íþróttafélög af suður- og suðvesturlandi senda 5. flokks lið drengja til mótsins. Þátttakendur verða vel á fjórða hundrað drengja á aldrinum 10 og 11 ára og munu flestir þeirra gista í Holtaskóla. Einnig má reikna með að fjöldi foreldra muni koma og fylgjast með börnum sínum keppa í Reykjaneshöllinni um helgina. Segja aðstandendur keppenda að ánægjulegt sé að íþróttahreyfingin geti tekið virkan þátt í að fá fólk til þess að sækja Reykjanesbæ heim. Óhætt er að gera ráð fyrir að fyrirtæki og þjónustuaðilar á svæðinu muni njóta góðs af þessum heimsóknum. Fjöldi sjálboðaliða mun leggja mótshöldurum lið til þess að gera mótið sem veglegast. Mótið hefst kl. 10:00 á laugardagsmorgun og lýkur með verðlaunaafhendingu um kl. 14:00 á sunnudaginn.
Þátttakendur munu gera ýmislegt annað en að leika knattspyrnu, m.a. skoðunarferð um Keflavíkurflugvöll, fara á kvöldvöku og í sund, halda pizzuveislu svo eitthvað sé nefnt. Bæjarbúar eru hvattir til þess að líta við í Reykjaneshöllinni og fylgjast með sprækum og kátum strákum í fótbolta um næstu helgi.
D A G S K R Á
LAUGARDAGUR:
kl. 8:30 Holtaskóli opnar fyrir keppnislið
Gera skal upp þátttökugjald í Holtaskóla
kl. 10:00 Leikir dagsins hefjast
kl. 17:00 Leikjum dagsins lýkur
kl. 17:30 – 19:30 Kvöldmatur í Holtaskóla
kl. 20:00 Kvöldskemmtun
kl. 21:30 Kvöldkaffi í Holtaskóla
kl. 23:00 Kvöldspjall þjálfara og fararstjóra í Félagsheimili Keflavíkur v/Hringbraut (neðan við Holtaskóla). Boðið upp á léttar veitingar.
* Vallarnesti (samloka, safi, ávöxtur, jógúrt og súkkulaðistykki) verður afhent til liða á 2. hæð Reykjaneshallar á laugardagsmorgni.
* Ferð um Keflavíkurflugvöll (Herstöð) verður farin um hádegisbil á laugardegi. Tímasetningar nánar auglýstar í mótaskrá. Hver deild fyrir sig fer í vallarferð.
SUNNUDAGUR:
kl. 7:45 – 9:15 Morgunverður í Holtaskóla (kornfleks, brauð, ávextir, djús)
kl. 9:00 Leikir dagsins hefjast
kl. 11:50 – 13:50 Pizza í efri sal Reykjaneshallar (sjá tímatöflu deilda í mótaskrá).
kl. 13:40 Leikjum dagsins lýkur
kl. 14:00 Verðlaunaafhending og mótslok