Fréttir

Knattspyrna | 4. júlí 2003

Sparisjóðurinn styrkir Knattspyrnudeild áfram

Í dag var undirritaður samningur um samstarf Sparisjóðsins í Keflavík og Knattspyrnudeildar Keflavíkur en með samningum verður Sparisjóðurinn áfram aðalstyrktaraðili knattspyrnunnar í Keflavík. 

Við undirritunina þakkaði Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar, Sparisjóðnum þann ómetanlega stuðning sem hann hefur sýnt knattspyrnudeildinni undanfarin ár.  Sparisjóðurinn hafi stutt deildina og knattspyrnufólk í Keflavík af heilum hug og sýnt mikinn skilning á því starfi sem unnið er í félaginu og gildi þess.  Þá þakkaði Rúnar sérstaklega fyrir þann stuðning sem knattspyrnudeildin hefur getað treyst á af hendi Sparisjóðsins í gegnum þá erfiðu tíma sem slæm fjárhagsstaða hafi skapað deildinni undanfarið en sæi vonandi fyrir endann á.

Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri staðfesti samninginn fyrir hönd Sparisjóðsins og sagði að það væri ánægjulegt að geta styrkt íþróttastarfsemi í bæjarfélaginu á þennan hátt.  Innan Sparisjóðsins væri mikil ánægja með að geta styrkt knattspyrnudeildina og þá sem þar stunda íþróttina.  Sagðist Geirmundur vonast til að stuðningurinn skilaði sér innan vallar sem utan og hann treysti því að Keflavíkurliðið ynni sér sæti í úrvalsdeild í haust.