Spenna í loftinu í Keflavík og Kópavogi
Nú styttist í undanúrslitin í VISA-bikarnum og er umfjöllun um leik Keflavíkur og Breiðabliks á vef KSÍ:
Undanúrslit VISA-bikars karla í knattspyrnu fara fram um helgina. Á sunnudeginum mætast Keflavík og Breiðablik en leikið er á Laugardalsvelli og hefst leikurinn kl. 16:00. Heimasíða KSÍ náði tali af fyrirliðum liðanna.
"Það er gott hljóð í Keflvíkingum. Tilhlökkun og spennandi að fá að kljást við Blikana á sunnudaginn," segir Hólmar Örn Rúnarsson, fyrirliði Keflavíkur.
Síðast þegar þessi lið mættust fór Breiðablik með sigur af hólmi, 3-0, í Keflavík. Hólmar Örn segir að Keflvíkingar ætli sér að hefna fyrir þær ófarir.
"Við fengum smá blástur á móti Breiðabliki á heimavelli og við erum staðráðnir í að gera talvert betur en þá. Það þarf held ég ekkert að mótivera menn fyrir undanúrslit í bikar og við mætum grimmir í þennan leik," segir Hólmar Örn.
"Við erum staðráðnir í því að fara alla leið í bikarnum. Við vitum það að við erum með gott lið og ef við náum upp okkar leik, þá getum við unnið hvaða lið sem er," segir Hólmar Örn sem var bikarmeistari með Keflavík árið 2004 og lék alla leiki nema úrslitaleikinn þegar Keflavík varð bikarmeistari árið 2006.
Breiðablik hefur aldrei unnið bikarkeppnina en einu sinni leikið til úrslita. Það var árið 1971 þegar Breiðablik tapaði 1-0 fyrir Víking.
Kári Ársælsson, fyrirliði Breiðabliks, segir að nú sé tími fyrir Breiðablik að sýna og sanna að liðið er ekki bara ungt og efnilegt.
"Menn eru bara spennir og ólmir í að sanna sig. Við erum búnir að fara í undanúrslit síðustu tvö ár. Nú er bara kominn tími til að fara alla leið og leggja allt í sölurnar. Liðið er ungt og efnilegt en við erum að reyna að vera meira en það. Mér finnst við vera að sýna það, allavega í síðustu leikjum. Við höfum verið að spila vel og ná góðum úrslitum. Við þurfum bara að byggja ofan á gott gengi," segir Kári og bætir við að Blikar séu orðnir hungraðir í titil.
"Maður heyrir allskyns raddir núna, sérstaklega þegar það er smá möguleiki á titli. Það er svakalegt hungur og það væri frábært að eiga góðan leik á sunnudaginn og komast í úrslitaleikinn. Það væri algjör draumur," segir Kári að lokum.