Spjall við kallinn í brúnni
Strákarnir okkar spila sinn fyrsta leik í Pespi-deildinni þegar Íslandsmeistarar FH koma í heimsókn á mánudaginn. Það þarf varla að hvetja Keflvíkinga til að mæta á völlinn enda sannkallaður stórleikur þarna á ferðinni. Við lögðum nokkrar spurningar fyrir Kristján þjálfara fyrir fyrsta leik.
Hvernig hefur undirbúningur Keflavíkurliðsins verið í vetur?
Undirbúningurinn tók mið af því hvernig við gerðum hlutina fyrir tímabilið í fyrra. Við tókum stutt frí eftir að keppnistímabilinu lauk og æfðum síðan í sex vikur fram í desember en fórum þá í mánaðarfrí. Frá áramótum höfum við æft sex sinnum í viku, sem er æfingu meira á viku en árinu áður en hér vorum við að koma til móts við leikmenn um að æfa oftar í Reykjaneshöllinni og taka burt útihlaupin. Við þróuðum áfram styrktarþjálfunina frá fyrra ári og vorum í góðri samvinnu við Akademíuna í gegnum Ásdísi Þorgilsdóttur sem hefur verið ábyrg fyrir þeim hluta og sinnt því starfi af miklum metnaði. Þá einbeittum við okkur jafnframt að því að verða enn einbeittari í hugarþjálfuninni sem við byrjuðum einmitt á fyrir seinasta tímabil.
Hvernig gekk æfingaferðin í Portúgal, varstu ánægður með ferðina?
Æfingaferðin til Portúgal var framúrskarandi og tókst á allan hátt mjög vel. Það er alveg öruggt að þeim tíma og fjármunum sem eytt var í þá ferð mun skila sér til liðsins á keppnistímabilinu. Æfingaaðstaðan var líklega sú besta sem við höfum fengið í ferðum sem þessum og öll aðstaða hentaði vel til æfinga og fundahalda fyrir okkur. Við æfðum alla dagana á meðan við vorum á svæðinu, þar af fjóra daga tvisvar á dag.
Lengjubikarinn, voru það vonbrigði að komast ekki áfram?
Það eru alltaf vonbrigði að komast ekki áfram í Lengjubikarnum, sérstaklega þar sem áframhald tryggir þér yfirleitt góða leiki í undirbúningnum. Að vísu var það ákveðinn léttir að þessu sinni að komast ekki áfram því það átti að neyða okkur til þess að spila daginn eftir heimkomu úr æfingaferðinni og spila síðan undanúrslit tveimur dögum síðar. Ótrúlegt fyrirkomulag á Lengjubikarnum, að leika úrslitakeppnina á 7 dögum en riðlakeppnin sjálf tók þrjá mánuði! Jæja, hvað um það. Við fundum okkur tvo andstæðinga til þess að leika æfingaleiki gegn og komumst fyrr á grasið fyrir vikið...
Það eru margir snjallir leikmenn farnir frá Keflavík frá því á síðasta tímabili en þú ert búinn að fá fjóra góða leikmenn til liðsins, þá Alen, Bjarna Hólm, Hauk Inga og markvörðinn Lasse. Hvernig leikmenn eru þetta og hver er þeirra helsti styrkur?
Alen og Bjarni eru hafsentar, sterkir, hávaxnir varnarmenn sem munu styrkja okkur mikið, með góða reynslu af að leika alvöru fótbolta. Af fyrstu leikjum að dæma þá virðast þeir ná vel saman í leik sínum með okkur og ég á von á því að þeir muni verða sterkir í sumar. Lasse er stór og mikill markvörður frá Danmörku. Hann hefur takmarkaða reynslu en góðan skóla í markvörslu, hefur gott grip, talar vel við varnarmennina og er áræðinn. Haukur Ingi er stórkostlegur knattspyrnumaður. Fljótur, leikinn, með mikinn leikskilning og áræðinn með afbrigðum. Haukur Ingi er lúxusvara sem við munum fara vel með til þess að fá sem flestar spilaðar mínútur frá honum fyrir liðið því það sem hann framkvæmir á vellinum er oft unun að horfa á. Ég hafði í raun ekki gert mér grein fyrir því hversu góður knattspyrnumaður Haukur Ingi er fyrr en ég sá hann í návígi á æfingum hjá okkur.
Eigum við von á fleiri leikmönnum fyrir tímabilið?
Við eigum ekki von á því en í þessum boltaleik er aldrei að vita. Allavega hafa þjálfararnir áhuga fyrir því að skoða eins og einn til tvo leikmenn í viðbót en við verðum að vera skynsamir og líta á heildarmyndina áður en ákvarðanir verða teknar.
Nú er Íslandsmótið að hefjast og heimaleikur gegn FH í fyrsta leik.
Stórt verkefni og einmitt það sem leikmenn Keflavíkur vilja, stór og krefjandi verkefni til þess að sýna hversu sterkir við erum. FH-liðið er gríðarlega sterkt, vel spilandi og vel þjálfað. Það verður erfitt að glíma við þá en við erum staðráðnir í að láta þá vita vel af því að þeir eru komnir til Keflavíkur. Við búumst við góðum stuðningi frá áhorfendum á leiknum og já, á öllum leikjum okkar í sumar því það er ekkert sjálfgefið að Keflavík hafi svo sterkt knattspyrnulið í efstu deild ár eftir ár sem raun ber vitni. Það þarf að hafa fyrir hlutunum og okkur ber öllum skylda til þess að styrkja það og hvetja til dáða, okkur öllum til sóma!