Fréttir

Knattspyrna | 15. ágúst 2003

Stærsti sigur sumarsins gegn Haukum

Stærsi sigur Keflavíkur í 1. deildinni í sumar leit dagsins ljós á Keflavíkurvelli í kvöld þegar Haukar voru lagðir með fimm mörkum gegn engu.  Keflavíkurliðið lék frábærlega í leiknum, leikmenn héldui boltanum vel og spilið gekk vel frá aftasta manni og fram völlinn.  Strákarnir gerðu út um leikinn með fjórum mörkum í fyrri hálfleik og bættu svo því fimmta við á síðustu mínútu leiksins.

Keflavík - Haukar

Hilmar Bragi/Víkurfréttir

Keflvíkingar byrjuðu leikinn strax af miklum krafti og gestirnir áttu í vök að verjast.  Scott skaut tvívegis framhjá á fyrstu mínútum og síðan átti Þórarinn skot yfir eftir langa spyrnu frá Ómari.  Þórarinn braust síðan laglega í gegnum vörnina og átti skot rétt framhjá en Magnúsi tókst næstum að pota boltanum inn.  Fyrsta markið kom á 18. mínútu.  Stefán átti frábæra sendingu inn fyrir vörnina hægra megin þar sem Magnús brunaði að markinu; hann sendi boltann fyrir markið og Þórarinn afgreiddi hann örugglega í netið.  Næstu mínúturnar skall hver sóknin á eftir annarri á marki gestanna og sáust mörg skemmtileg tilþrif.  Hólmar átti frábæra fyrirgjöf sem Þórarinn rétt missti af, og Scott skaut enn rétt framhjá eftir fyrirgjöf frá Jónasi.  Það var aðeins tímaspursmál hvenær næsta mark liti dagsins ljós og það kom á 29. mínútu.  Stefán átti enn frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Magnús, hann lék að vítateignum og sendi knöttinn til hliðar á Hólmar Örn sem renndi boltanum undir markmanninn og í netið.  Fimm mínútum síðar kom næsta mark.  Scott tók aukaspyrnu á hægri kantinum, Haraldur stökk hæst allra og skallaði að markinu þar sem Kristján fylgdi vel á eftir og þrumaði boltanum í markið.  Vel gert og fyrsta mark Kristjáns í deildinni í sumar.  Og enn kom mark fimm mínútum síðar.  Enn kom sending inn fyrir vörnina en Magnús rétt missti af boltanum til markmannsins.  Hann missti boltann hins vegar frá sér, Scott var fyrstur að átta sig og skoraði með laglegu skoti af markteigshorninu þrátt fyrir örvæntingarfullar tilraunir markmannsins og varnarmanna á línunni.  Á lokamínútum hálfleiksins kom síðan enn ein stórsóknin en markmaður gestanna bjargaði tvívegis vel og staðan í hálfleik því 4-0.

Keflavík - Haukar

Hilmar Bragi/Víkurfréttir


Haukar gerðu tvær breytingar á sínu liði í hálfleik en okkar strákar létu það lítið á sig fá og héldu áfram að sækja af krafti.  Boltinn gekk vel milli manna, kantarnir voru vel nýttir og varnarmennirnir tóku virkan þátt í sókninni.  Oft sáust stórskemmtileg tilþrif í sóknarleiknum en ekki tókst að nýta færin eins vel og í fyrri hálfleiknum.  Haraldur skaut rétt framhjá eftir skemmtilega sókn, Hólmar skaut yfir og Stefán skallaði yfir eftir hornspyrnu.  Haukarnir áttu ekki margar sóknir.  Eitt skot utan úr teig fór yfir eftir að hornspyrna hafði siglt yfir teiginn og Ómar varði vel spyrnu frá eigin varnarmanni sem stefndi neðst í markhornið eftir baráttu í teignum.  Ein skemmtilegasta sóknin kom upp vinstri kantinn þegar Scott og Kristján léku þar upp, Kristjánn átti síðan glæsilega fyrirgjöf sem Þórarinn skallaði að markinu en markmaður Haukanna varði með tilþrifum eins og nokkrum sinnum í seinni hálfleiknum.  Hörður kom inn á fyrir Þórarinn undir lok leiksins og átti tvö færi; fyrst skaut hann rétt framhjá og síðan varði markvörðurinn hetjulega í markteignum.  Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma kom síðan fimmta markið.  Guðjón brá sér í sóknina og gaf skemmtilega sendinu inn fyrir vörnina á Magnús.  Magnús tætti vörnina í sig einu sinni sem oftar, braust upp að endamörkum og renndi boltanum síðan út í teig þar sem Guðjón kom aðvífandi og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík með öruggu skoti í bláhornið.

Keflavík - Haukar

Hilmar Bragi/Víkurfréttir


Niðurstaðan því stórsigur og liðið enn í efsta sæti deildarinnar.  Segja má að allt liðið hafi verið að leika vel í þessum leik.  Stuðningsmenn völdu þó Þórarinn Kristjánsson mann leiksins og fékk hann gjafabréf frá veitingastaðnum Ránni að launum en óhætt er að segja að í þessum leik hafi hann verið fremstur meðal jafningja.

Keflavíkurvöllur, 15. ágúst 2003
Keflavík 5
(Þórarinn Kristjánsson 18., Hólmar Örn Rúnarsson 29., Kristján Jóhannsson 34, Scott Ramsay 38., Guðjón Antoníusson 90.)
Haukar 0 

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Zoran Ljubicic, Haraldur Guðmundsson, Kristján Jóhannsson - Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Stefán Gíslason (Hjörtur Fjeldsted 83.), Scott Ramsay (Ólafur Ívar Jónsson 73.) - Magnús Þorsteinsson, Þórarinn Kristjánsson (Hörður Sveinsson 73.)
Varamenn: Magnús Þormar, Ingvi Rafn Guðmundsson
Gult spjald: Stefán Gíslason (7.), Hólmar Örn Rúnarsson (35.)

Dómari: Gunnar Sverrir Gunnarsson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Oddbergur Eiríksson
Eftirlitsmaður: Sigurður Hannesson

Keflavík - Haukar

Hilmar Bragi/Víkurfréttir