Fréttir

Knattspyrna | 12. apríl 2011

Stelpurnar á Spáni - samantekt

Meistaraflokkur og annar flokkur kvenna Keflavík fór í æfingar- og keppnisferð til Isla Canela á Spáni 2.-9. apríl.  Hér kemur samantekt um ferðina...

Laugardagurinn 2. apríl - Brottför.
Allar mættar um kl. 7:00 hressar og kátar nema ein, hún svaf heima í rólegheitunum! Hringt í hana og hún hentist á staðinn. Í innritunarröðinni fór önnur að athuga hvort passinn væri nokkuð runninn út, þá heyrist allt í einu í henni “ALBERT” allir litu upp, þá var hún einhverra hluta vegna með vegabréf frænda síns!! Hún var auðvitað kölluð “Berti” eftir það.
Allt fór þetta vel fyrir brottför og fórum við í loftið stundvíslega kl. 9:30, enda að fljúga með Icelandair. Flugið tók um 4,5 tíma og var bara fínt. Drifum okkur í rútuna sem beið eftir okkur í Sevilla og brunuðum af stað á hótelið. Sá akstur tók um 2 tíma. Veðrið var ekki slæmt, hálfsól og 20° hiti. Komin á Iberostar Isla Canela hótelið um kl. 19:30 allir komu sér fyrir og fóru að skoða sig um á staðnum. Fundur um kvöldið þar sem Steinar bauð alla velkomna og fór yfir prógrammið framundan.  Hann hrósaði stelpunum alveg sérstaklega fyrir það hve öflugar þær hefðu verið í að afla fjár fyrir ferðina og hversu margar hefðu á endanum séð sér fært að koma en alls voru í för 23 leikmenn, 2 þjálfarar, fararstjóri og tvær ungar dömur að auki. Eyjólfur farastjóri hjá VITA ferðum hélt stutta tölu og gerði öllum grein fyrir aðstæðum á staðnum og því að hann yrði til staðar fyrir okkur allan tímann.

Sunnudagur 3. apríl.
Mættar í morgunmatinn eftir góðan nætursvefn. Nú tók við valkvíði sökum þess hve úrvalið var gott, en þarna gátu einfaldlega allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Morgunæfingin hófst síðan stundvíslega kl. 9:30. Við höfðum þrjá níu manna bíla til afnota og tók um 5 mínútur að aka milli hótels og æfingasvæðis. Vel var tekið á því á æfingunni sem stóð til kl. 11:00. Verslunarferð til Faro sem var plönuð á miðvikudeginum var færð til dagsins í dag þar sem veðrið var ekki upp á það besta, skýjað og dropar annð slagið! Eyddum um 4 klst. í Mollinu og voru stelpurnar ánægðar með árangurinn. Ekki skemmdi fyrir að þær komust á McDonald´s á staðnum. Um kvöldið var tekinn göngutúr um svæðið, komið við á sportbar í nágrenninu þar sem stelpurnar gátu komist á netið og spjallað.

Mánudagur 4. apríl.
Svolítið annað veður sem tók við núna, sól og hiti. Eftir góða morgunæfingu mættu allar á bakkann í sólbað og var hver mínúta nýtt. Eftir seinnipartsæfingu var aftur sólbað en ekki fyrr en allir voru búnir að stökkva útí ískalda sundlaugina. Eftir matinn tók við lærdómur hjá skóladömunum. Frjálst um kvöldið og fóru sumar stelpurnar á sportbarinn á netið en aðrar slökuðu á. Undirritaður ásamt þjálfara fóru um kl. 21:00 til Sevilla til að sækja einn leikmann sem ekki komst á laugardeginum vegna fermingar hjá systkyni. Einnig til að sækja litla dóttir þjálfarans sem var ómöguleg heima og vildi til pabba. Ferðalagið gekk vel og tók um 4,5 klst.

Þriðjudagur 5. apríl
Hefðbundin morgun athöfn eftir að fararstjórinn hafði hringt á öll herbergi til að ganga úr skugga um að allar væru vaknaðar. Allar hressar og kátar og vel tekið á, á æfingunni. Eftir æfingu var borðað og slakað á fram að seinnipartsæfingu og ekkert sólbað í boði þar sem skýjað var þennan daginn. Eftir æfingu var skotist til Ayamonte til að versla smotterí og haldið heim á hótel. Nú tók við skemmtikvöld í boði “Yngri” og er óhætt að segja að þær hafi slegið í gegn og allir skemmtu sér konunglega. Í kvöldmatnum var afmælissöngurinn tekinn fyrir Hafdísi og kaka snædd af því loknu og öllum í salnum boðið. Lærdómur næst á dagskrá og síðan var sest niður og horft á leik í meistaradeildinni Real Madrid og Tottenham. Auðvitað var tippað á leikinn en þetta var sá fyrri í tveggja leikja tippi til að knýja á um sigurvegara. Fljótlega eftir leikinn var gengið til náða.

Miðvikudagur 6. apríl.
Sól og blíða í boði og eftir góða æfingu var farið beint í sólbað. Seinnipartinn var leikur milli yngri og eldri. Frábær leikur þar sem yngri fóru inn í hálfleikinn yfir 2-1. Eldri mættu brjálaðar inn í seinni hálfleikinn og pressuðu hátt en var refsað og yngri komust í 3-1. Nú settu eldri fótinn niður og Karen nokkur tók til sinna mála. Endalokin urðu 3-6 fyrir eldri þar sem Karen setti fjögur. Eyjólfur Ólafsson dæmdi leikinn og stóð sig vel að vanda. Pizza kvöld var tekið á sportbarnum og horft á Chelsea-Man. Utd. í meistaradeildinni. Þar stóð ein uppi sem sigurvegari þar sem hún var bæði með hálfleiks og úrslitatölur réttar. Verðlaun voru í boði og skyldu afhent í Albufeira Portugal þar sem við vorum síðustu nóttina.

Fimmtudagur 7. apríl.
Sól og blíða sem fyrr. Nú fengu dömurnar að sofa lengur enda búnar að vinna fyrir því. Morgunæfingin að þessu sinni var tekin kl. 11:00 á ströndinni þar sem farið var í blak og sett var upp keppni. Hörð barátta var og mikið gaman. Þarna sáust meistarataktar á köflum. Úrslitaleikurinn var á milli Gunners og The return of Johnny Walker plus two. Það voru Gunners sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir skemmtilegan leik. Nú var haldið í tanið, borðað og tekin síðdegisæfing. Eftir matinn var komið að skemmtikvöldi í boði eldri. Allir fengu hlutverk en fyrst voru allir sendir uppá svið til að dansa fyrir fjölmarga gesti hótelsins Björg Ásta sló þar ótvírætt í gegn! Síðan voru það leikritin, Rauðhetta og úlfurinn, Öskubuska og Grísirnir þrír. Það voru grísirnir sem þóttu standa upp úr með frábærum “performance” Steinars þjálfara. Þetta var frábært framtak hjá eldri og höfðu allir gaman af. Setið og spjallað og nokkur spor tekin á dansgólfinu fram að miðnætti.

Föstudagur 8. apríl.
Eftir mogunæfinguna var það sturta og smá næring áður en hótelið og Spánn voru yfirgefin því nú var haldið til Albufeira. Brottför var kl. 12:00. Mætt á Paraiso hótelið eftir um einn og hálfan tíma. Eftir að allir höfðu innritað sig var farangrinum hent uppá herbergi og mætt srrax niður aftur því nú skyldi skroppið í verslunarleiðangur númer tvö. Sumar fengu sér þó göngu í staðinn niður í gamla bæinn. Eftir frekar langan verslunartúr kíktu flestir í sundlaugargarðinn en undirritaður og Steinar fórum í að græja sprungið dekk á einum bílnum. Hvorki var að finna varadekk né tjakk þannig að það jók á gleðina! Eftir vel á annan tíma var þetta mál úr sögunni og hægt að fara að huga að kvöldmat þar sem við ætluðum öll að fara saman út að borða. En fyrst var undirritaður með varðlaunaafhendingu í anddyri hótelsins, þe. Verðlaun fyrir fyrir rétt tipp á leikinn sem getið er um hér að framan. Síðan voru verðlaun fyrir, mestu brúnkuna, þar voru verðlaunin poki af lakkrís enda daman kölluð “Sambó” í ferðinni. Síðan var það karfi ferðarinnar þe. Sá sem varð meira rauður en brúnn af sólinni, verðlaunin fyrir þennan flokk var dós af “Red Bull” . Að lokum var það Homeblest ferðarinnar en þar vann ein yngri daman afgerandi sigur þar sem hún var aðeins brún á framhliðinni, að sjálfsögðu fékk hún pakka af Homeblest kexi. Nú var arkað af stað og skyldi borðað. Pizza Hut varð fyrir valinu og virtust allir vera sáttir með það. Farið aftur á hótelið þar sem liðið klæddi sig upp og græjaði því nú skyldi farið í bæinn. Farið á kareoki stað þar sem nokkur lög voru tekin og dansað frm til kl. 1:00 en þá fór undirritaður og Björg Ásta með yngri dömurnar uppá hótel en þær eldri skyldu skila sér fyrir kl. 3:00. Allt gekk þetta vel fyrir sig og allir höfðu mjög gaman af.

Laugardagur 9. apríl - Heimför.
Tekinn morgunmatur svona á bilinu 7:30-9:30 og síðan fóru sumar að sóla sig. Veðrið auðvitað uppá sitt besta. Rúta kom og tók farangurinn fyrir hópinn og síðan lögðum við af stað á bílunum til Faro. Allt gekk að óskum og eftir langa bið í innritun settist hópurinn niður til snæðings. Flugið gekk vel og allir gátu látið fara vel um sig því nóg pláss var í vélinni. Lentum heima kl. 18:00 og fljótlega skildu leiðir. Allir voru sáttir við ferðina í heild sinni.

Lokaorð.
Undirritaður hefur ekki mikla reynslu af fararstjórn en einhverja þó og hefur það einskorðast við yngri flokkana. Bókstaflega þurfti ekkert að hafa fyrir þessum frábæru stelpum og óhætt að segja að þær hafi verið fararstjórans draumur. Þær þjöppuðust betur og betur saman með hverjum deginum sem leið og voru orðnar öflug heild mjög fljótt í ferðinni. Ég vona að þær hafi tekið eitthvað með sé heim úr ferðinni og mæti enn öflugri til leiks en áður.

Að lokum vill undirritaður þakka frábæru þjálfarateymi og stelpunum okkar fyrir mig. Það er ljóst að ég lærði mikið á þessu. Takk fyrir.

Áfram Keflavík

Baráttukveðja
Örn Sævar Eiríksson


Allur hópurinn saman kominn.


Koma svo!  Björg Ásta hvetur bæði lið...


Karen tekur miðju í fyrri, sá síðan um að skora í seinni.

?
Eldri hópurinn klár í leikinn...


...og yngri hópurinn líka.


Sigurvegarar í strandblakinu, The Gunners.