Stelpurnar í úrslitakeppnina
Keflavíkurstelpurnar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna með frábærum sigri á Haukum s.l. mánudag. Leikurinn hafði mikla þýðingu fyrir Keflavík sem þurfti á sigri að halda til að tryggja sæti í úrslitakeppninni en Haukar höfðu þegar tryggt sér 2. sætið í riðlinum. Grindavík sigraði riðilinn með nokkrum yfirburðum og Keflavík endaði því í 3. sæti. Nú tekur við 8 liða úrslitakeppni um tvö sæti í Pepsi- deildinni. Þetta 3. sæti í riðlinum þýðir jafnframt að Keflavík mun ekki leika neðar en í B-deild að ári. Það verður fjölgað um eina deild í kvennaboltanum 2017, með tapi gegn Haukum hefði Keflavík endað í 4. sæti í riðlinum og spilað í C-deild 2017.
Keflavíkurstúlkur mættu mjög ákveðnar í leikinn gegn Haukum og ljóst að þær ætluðu sér ekkert nema sigur. Sveindís Jane hélt uppteknum hætti og setti þrjú mörk í frábærum 3-1 sigri, stelpan búin að vera mögnuð í sumar. Það var liðsheildin sem stóð upp úr í þessum leik en allar stelpurnar áttu flottan leik gegn góðu liði Hauka.
Úrslitakeppnin hefst á laugardaginn en þá verður heimaleikur gegn Tindastól á Nettóvellinum kl. 14:00. Seinni leikurinn fer svo fram á Sauðárkróki miðvikudaginn 7. september. Sigurvegarinn úr þessu einvígi spilar úrslitaleiki um sæti í Pepsi deildinni við sigurvegarana úr einvíginu Haukar - HK/Víkingur.
Jón Örvar Arason var mættur á Ásvelli og smellti þessum myndum.