Stigamet, markaskorun og nokkrar staðreyndir
Það er óhætt að segja að strákarnir okkar hafi verið á mikilli siglingu í sumar, liðið hefur verið í toppbaráttunni frá upphafi og leikir þess hafa nær undantekningarlaust verið skemmtilegir og vel leiknir. Með sigrinum gegn ÍA í síðustu umferð er liðið komið með 33 stig í Landsbankadeildinni, hefur skorað 36 mörk og eins og einhverjir vita kannski erum við sem stendur í 2. sæti deildarinnar. Auðvitað er mikið eftir af mótinu en hvernig sem fer getum við verið ánægð með frammistöðuna í sumar.
Keflavík er þegar komið með 33 stig í Landsbankadeildinni sem er mesti stigafjöldi í sögu félagsins. Mesti stigafjöldi liðsins eftir að 3ja stiga reglan var tekin upp voru 31 stig sem liðið krækti í árið 1994. Besti árangur Keflavíkur var þó árið 1973 þegar liðið lék 14 leiki; vann tólf þeirra en gerði tvö jafntefli. Liðið fékk þá 26 stig en hefði hlotið 38 stig miðað við þrjú stig fyrir sigur. Auðvitað er erfitt að bera saman árangur milli ára því leikjum í deildinni hefur fjölgað með árunum en það breytir þvi ekki að stigin 33 eru komin og metið er í höfn.
Okkar menn hafa verið iðnir við markaskorunina í sumar og hafa gert 36 mörk í fyrstu fimmtán umferðum deildarinnar, eða 2,4 mörk í leik. Þar með hafa þeir þegar jafnað besta árangur félagsins frá upphafi. Árið 1994 skoruðum við 36 mörk í 18 leikjum í deildinni og árið 1971 urðu mörkin einnig 36 en þá í 15 leikjum. Þá voru leiknir 14 leikir í efstu deild og eftir þá voru mörkin orðin 32. Liðið lék svo aukaleik við Vestmannaeyjar um Íslandsmeistaratitilinn og vann 4-0. Það er því nokkuð víst að félagsmetið fellur og með sama áframhaldi er ekki ólíklegt að liðið bæti árangurinn frá 1971 þegar Keflavík skoraði að meðaltali 2,4 mörk í leik.
Það hefur vakið nokkra athygli hve mörg mörk varamenn Keflavíkur hafa skorað í sumar. Af mörkunum 36 hafa varamenn skorað 8 stykki, eða 22% marka liðsins. Það sýnir svo sannarlega hve breiddin í leikmannahópnum er mikil og að í hópnum eru fjölmargir leikmenn sem geta skorað þegar minnst varir. Ef svo heldur fram sem horfir hætta sóknarmennirnir væntanlega að berjast um sæti í liðinu og fara að slást um að fá að byrja á bekknum.
Sigurinn á Akranesi var reyndar nokkuð sögulegur en með honum náðum við "tvennunni" gegn Skagamönnum í sumar, þ.e. unnum bæði heima- og útileikinn. Það hefur ekki gerst oft í gegnum tíðina enda er ÍA það lið sem okkur hefur gengið hvað verst með í efstu deild. Á þeim 42 tímabilum sem við höfðum leikið tvívegis gegn Skaganum hefur Keflavík fimm sinnum áður tekist að vinna báða leikina. Það gerðist síðast árið 1994 og þar áður árin 1964, 1965, 1972 og 1973. Aftur á móti hefur ÍA 14 sinnum unnið báða leikina.
Markið glæsilega sem Guðmundur fyrirliði skoraði uppi á Skaga var 59. mark hans fyrir Keflavík í efstu deild. Hann er nú einn í 2. sæti yfir markahæstu leikmenn Keflavíkur í efstu deild og er kominn upp fyrir Óla Þór Magnússon sem skoraði 57 stykki. Efstur er auðvitað Steinar Jóhannsson, faðir Guðmundar, sem skoraði 72 mörk fyrir Keflavík í efstu deild á árunum 1970-1980. Frá því að Keflavík kom aftur upp í efstu deild árið 2004 hefur það tekið Guðmund um 2,6 leiki að skora mark og með sama áframhaldi ætti það að taka hann 34 leiki að slá metið. Það ætti þá að gerast snemma árs 2010 en miðað við frammistöðu piltsins undanfarið er ekki ólíklegt að nokkur mörk bætist við í sumar og metið ætti því að vera í hættu á næsta ári. Og nú er að sjá hvort andrúmsloftið í fjölskyldunni fari ekki að verða spennuþrungið...
Það er óhætt að segja að markaskorun sé Guðmundi í blóð borin. Fyrir utan karl föður hans var bróðir Steinars, "Marka"-Jón helsti markaskorari liðsins upp úr 1960 og skoraði alls 24 mörk fyrir félagið í efstu deild. Á upphafsárum Keflavíkurliðsins var Högni Gunnlaugsson, afabróðir Guðmundar, einn besti leikmaður þess og markahrókur. Högni skoraði m.a. fyrsta mark Keflavíkur í efstu deild, gegn ÍA árið 1958. Þá lék Kristinn Gunnlaugsson, bróðir Högna og móðurafi Guðmundar, einmitt með Skagaliðinu sem vann reyndar leikinn 5-1. Högni skoraði á sínum tíma 20 mörk fyrir Keflavík í efstu deild á árunum 1958-1966 og var fyrirliði fyrsta Íslandsmeistaraliðs félagsins árið 1964. Það verður þó að taka fram að Högni lék nokkur tímabil með Keflavík í 2. deild og á þessum árum höfðu menn ekki marga leiki til að safna mörkum í sarpinn. Árið 1958 lék hvert lið aðeins 5 leiki en árið eftir var tekin upp tvöföld umferð og næstu ár voru leikirnir 10 ár hvert.
Það hefur verið rík ástæða til að gleðjast í sumar, innan vallar sem utan.
Boltinn liggur í bláhorninu eftir aukaspyrnuna frá Gumma á Skaganum.
Ánægðustu varamenn landsins eru í Keflavík.