Stjarnan - Keflavík á sunnudag kl. 20:00
Á sunnudag er komið að enn einum stórleiknum í Pepsi-deildinni en þá heimækjum við Stjörnuna í 19. umferð deildarinnar. Leikurinn verður á Samsung-vellinum í Garðabæ og það er rétt að benda sérstaklega á að leikurinn hefst kl. 20:00. Fyrir leikinn er Keflavík í 9. sæti deildarinnar með 19 stig en Stjarnan er í 2. sæti með 39 stig. Þetta er því mikilvægur leikur fyrir liðin sem eru bæði í harðri baráttu, reyndar á sitt hvorum enda deildarinnar. Dómari leiksins verður Þóroddur Hjaltalín, aðstoðardómarar Birkir Sigurðarson og Smári Stefánsson, varadómari er Pétur Guðmundsson og eftirlitsmaður KSÍ verður Guðmundur Sigurðsson. Þess má geta að leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Efsta deild
Keflavík og Stjarnan hafa leikið 19 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1994. Keflavík hefur unnið sjö leiki en Stjarnan sex og sex sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 28-26 fyrir Keflavík. Jóhann Birnir Guðmundsson hefur skorað fimm mörk gegn Stjörnunni í efstu deild, Hörður Sveinsson fjögur, Sindri Snær Magnússon tvö og Einar Orri Einarsson og Magnús Þórir Matthíasson eitt mark hvor. Það er einmitt Jóhann Birnir sem hefur gert flesti mörk fyrir Keflavík gegn Stjörnunni í efstu deild.
B-deild
Liðin léku fjóra leiki í B-deildinni, árin 1992 og 2003. Keflavík vann tvo þessara leikja og Stjarnan einn en einum leik lauk með jafntefli. Markatalan er 8-6 fyrir Keflavík. Einn núverandi leikmaður Keflavíkur hefur skorað í leikjum liðanna í næstefstu deild en það er Magnús Þorsteinsson.
Bikarkeppnin
Keflavík og Stjarnan hafa aðeins einu sinni mæst í bikarkeppni KSÍ en það var árið 2008. Þá vann Keflavík 2-1 á heimavelli í 32 liða úrslitum keppninnar. Magnús Þorsteinsson skoraði fyrir Keflavík í þeim leik.
Síðast
Liðin léku fyrri í sumar í Pepsi-deildinni og þá á heimavelli okkar, Nettó-vellinum. Þar var um hörkuleik að ræða sem lauk með 2-2 jafntefli. Sindri Snær Magnússon gerði bæði mörk okkar manna en Jeppe Hansen og Ólafur Karl Finsen skoruðu fyrir Stjörnuna.
Bæði lið
Nokkrir leikmenn hafa leikið með bæði Keflavík og Stjörnunni í gegnum árin, m.a. Grétar Atli Grétarsson, Adolf Sveinsson, Kristinn Guðbrandsson, Helgi Björgvinsson og markmennirnir Bjarki Freyr Guðmundsson og Magnús Þormar. Um mitt þetta sumar gengu síðan þrír fyrrverandi leikmenn Stjörnunnar í okkar raðir en það eru þeir Aron Grétar Jafetsson, Aron Rúnarsson Heiðdal og Hilmar Þór Hilmarsson.
Síðustu leikir
Úrslit í leikjum Stjörnunnar og Keflavíkur í Garðabæ hafa orðið þessi:
2013 | Stjarnan - Keflavík | 1-0 | |
2012 | Stjarnan - Keflavík | 1-3 |
Guðmundur Steinarsson Hörður Sveinsson Jóhann B. Guðmundsson |
2011 | Stjarnan - Keflavík | 2-3 |
Einar Orri Einarsson Magnús Þórir Matthíasson Hilmar Geir Eiðsson |
2010 | Stjarnan - Keflavík | 4-0 | |
2009 | Stjarnan - Keflavík | 0-0 | |
2003 | Stjarnan - Keflavík (B-deild) | 1-1 | Scott Ramsay |
2000 | Stjarnan - Keflavík | 1-1 | Guðmundur Steinarsson |
1997 | Stjarnan - Keflavík | 1-3 |
Gunnar Oddson Jóhann B. Guðmundsson Haukur Ingi Guðnason |
1996 | Stjarnan - Keflavík | 2-1 | Jóhann B. Guðmundsson |
1994 | Stjarnan - Keflavík | 1-1 | Óli Þór Magnússon |
1992 | Stjarnan - Keflavík (B-deild) | 2-1 | Árni Vilhjálmsson |
Leikurinn
Að þessu sinni rifjum við upp leik Stjörnunnar og Keflavíkur í Garðabæ árið 1997. Keflavík vann leikinn 3-1 en liðið byrjaði þetta sumar af krafti og vann fyrstu sex leikina, þar á meðal þennan. Þess má geta að tveir þeirra sem tóku þátt í leiknum eru enn á fullri ferð í efstu deild en það eru Jóhann Birnir Guðmundsson og dómarí leiksins, Kristinn Jakobsson. Að neðan má sjá umfjöllun DV um leikinn.
Smellið á fréttina fyrir neðan til að sjá stærri útgáfu.