Stórleikur hjá Árna og sigur í Eyjum
Þó að gengi Keflavíkurliðsins á heimavelli hafi ekki verið samkvæmt væntingum hefur árangur liðsins á útivelli verið framar vonum. Liðið vann svo enn einn góðan útisigur þegar okkar menn heimsóttu Eyjamenn í 16. umferð Pepsi-deildarinnar. Guðmundur Steinarsson gerði eina mark leiksins strax í byrjun og þar við sat.
Eftir leikinn er Keflavík í 4.-5. sæti deildarinnar með 24 stig en það skal tekið fram að liðin í deildinni hafa leikið mismarga leiki. Næsti leikur er heimaleikur gegn Val á Nettó-vellinum mánudaginn 27. ágúst kl. 18:00.
-
Leikurinn var 65. leikur Keflavíkur og ÍBV í efstu deild. Keflavík hefur nú sigrað í 26 sinnum, ÍBV 27 sinnum og tólf sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 97-105 fyrir ÍBV.
-
Guðmundur Steinarsson skoraði sjöunda mark sitt í deildinn í sumar og hann er þar með orðinn markahæsti leikmaður liðsins. Markið var 81. mark Guðmundar í efstu deild í 238 leikjum.
-
Ómar Jóhannsson varð að fara af leikvelli eftir um tíu mínútna leik og kom Ární Freyr Ásgeirsson í markið í hans stað og stóð sig frábærlega. Árni lék í fyrsta sinn í sumar en hann lék síðast í efstu deild árið 2010.
-
Eyþór Ingi Einarsson og Elías Már Ómarsson voru á varamannabekknum í leiknum en það er í fyrsta skipti sem þeir eru í leikmannahópnum í efstu deildar leik.
-
Eins og áður sagði hefur okkar liði gengið illa á heimavelli í sumar en þeim mun betur á útivöllum. Liðið er búið að leika átta heimaleiki og hefur unnið tvo, gert tvö jafntefli og tapað fjórum. Afraksturinn er því átta stig af 24 mögulegum. Á útivelli hefur liðið hins vegar náð í 16 stig af 24, unnið fimm leiki, gert eitt jafntefli og tapað tveimur.
Fótbolti.net
,,Hann hlýtur að fá Pepsi eftir þetta, hann var frábær, hann var stórkostlegur," sagði Ómar Jóhannsson markvörður Keflavíkur eftir 1-0 sigur á íBV í eyjum um varamarkvörðinn Árna Frey Ásgeirsson sem kom inná á 12. mínútu í leiknum og stóð sig mjög vel.
Ómar gat ekki spilað lengur því sonur hans potaði í augað á honum í morgun og hann sá ekki með báðum.
,,Hann sleppur við flengingu fyrst að við unnum leikinn," sagði Ómar um soninn. ,,Hann rak puttann í augað í morgun þegar ég var að taka hann til í leikskólann og mér var svolítði illt.#
,,Ég hélt að þetta myndi jafna sig en svo varð þetta verra og verra og á endanum þurfti ég að fá dropa til að geta haft augað opið en það varð til þess að ég sá ekkert með auganu og var hálfblindur á öðru."
,,Ég er ekki það hrokafullur að halda að ég sé nógu góður eineygður að halda að Árni eigi ekki að spila enda sýndi hann það, hann var frábær."
Fréttablaðið / Vísir
Keflvíkingar urðu í kvöld fyrstir til þess að vinna Eyjamenn á Hásteinsvelli í Pepsi-deildinni í sumar en Guðmundur Steinarsson skoraði eina mark leiksins eftir ellefu mínútna leik.
Keflvíkingar léku manni færri síðustu tíu mínútu leiksins eftir að Frans Elvarsson fékk sitt annað gula spjald. Magnús Gylfason fækkaði í vörninni en Eyjamönnum tókst ekki að skora þrátt fyrir mikla pressu.
Eyjamenn voru búnir að vinna fimm heimasigra í röð í Pepsi-deildinni fyrir leikinn og alls búið að ná í 17 af 21 stigi í boði á Hásteinsvellinum á þessu tímabili.
Keflvíkingar léku án lykilmannanna Arnórs Ingva Traustasonar og Jóhanns Birnis Guðmundssonar í leiknum en eins og oft áður í sumar er Keflavíkurliðið afar öflugt á útivöllum. Þetta var fimmti útisigur Keflvíkinga í Pepsi-deildinni í sumar.
Sigurmark Guðmundar Steinarssonar var skondið og mjög óvænt. Jóhann Ragnar Benediktsson átti þá langt innkast beint á kollinn á Guðmundi sem skallaði boltann aftur fyrir sig og í fallegum boga yfir Abel í markinu.
Ómar - (Árni Freyr 8), Hilmar Geir 6, Jóhann Ragnar 6, Magnús Þór 6, Haraldur 6, Denis 5, Einar Orri 6, Frans 4, Magnús Sverrir 5 (Hörður 5), Bojan Stefán 5 (Sigurbergur 5), Guðmundur 7.
Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar komu í veg fyrir að Eyjamenn blönduðu sér af fullri alvöru í toppbaráttuna í gærkvöldi með því að leggja þá að velli í Eyjum, 1:0. Eins og í fyrri leik liðanna, var ÍBV mun sterkari en þegar upp er staðið eru það mörkin sem telja. Og hver annar en Guðmundur Steinarsson kom boltanum í netið og reyndist sínu félagi enn á ný mikilvægur. Besti maður vallarins kom hins vegar úr óvæntri átt, því varamarkvörður Keflvíkinga, Árni Freyr Ásgeirsson, átti sannkallaðan stjörnuleik.
Það var ekki langt liðið á leikinn þegar boltinn lá í netinu. Mark Guðmundar var skrautlegt í meira lagi og líklega ekki hans fallegasta. Hann var ekki á því að um heppnismark hefði verið að ræða. »Nei þetta var beint af æfingasvæðinu,« sagði Guðmundur hlæjandi þegar hann var spurður út í markið. »En að öllu gríni slepptu þá er þetta með því skrautlegasta sem ég hef skorað. Við Brynjar vorum eitthvað að kljást þarna og ég náði að setja hausinn í boltann. Ég vissi ekkert hvert hann fór eftir það og var svolítið hissa á að sjá hann í netinu,« viðurkenndi markahrókurinn öflugi.
MM: Árni Freyr.
M: Jóhann Ragnar, Magnús Þór, Haraldur Freyr, Einar Orri.
Víkurfréttir / VF.is
Það tók Guðmund nokkurn Steinarsson ekki nema um 10 mínútur að skora sigurmark Keflvíkinga gegn ÍBV í Eyjum í Pepsi-deildinni í kvöld. Guðmundur sýndi afar góða tilburði með boltann eftir langt innkast Jóhanns Ragnars Benediktssonar. Gott samspil þeirra tveggja og virkilega vel klárað hjá Guðmundi. Eftir markið voru heimamenn sterkari aðili leiksins í rokinu og rigningunni í Eyjum.
Guðmundur Þórarinsson átti m.a. skot í slánna á 50. mínútu af 25 metra færi. Inn vildi boltinn þó ekki og Keflavík hélt áfram forystunni. Sumir myndu segja ósanngjarnt en á meðan hitt liðið skorar ekki þá hlýtur forystan að vera sanngjörn. Eyjamenn héldu áfram að sækja en fengu engin alvöru færi þrátt fyrir að vera mikið með boltann. Niðurstaðan 0-1 sigur Keflavíkurpilta sem komast með sigrinum upp í 4.sæti deildarinnar. Eyjamenn hefðu með sigri getað náð 2.sætinu af KR en halda sér í staðinn í 3.sæti og munu því berjast við Keflavík, Breiðablik, ÍA og fleiri lið um Evrópusæti.
Árni Freyr Ásgeirsson, hinn ungi varamarkvörður Keflvíkinga þurfti óvænt að stökkva á milli stanganna þegar Ómar Jóhannsson þurfti að fara af velli snemma leiks. Árni átti stórleik og þurfti oft að hafa fyrir því að halda hreinu. „Það var nóg að gera, það er bara gott,“ sagði Árni í samtali við mbl.is. Hann sagði að hann hefði ekki átt von á því að spila en Ómar var þó tæpur.
„Ekki fyrr en að Ómar pikkaði í mig í Herjólfi fyrir leikinn og sagði að ég gæti þurft að spila, hann væri hálfblindur á öðru auganu. Ég er sáttur með mína frammistöðu og við fáum að sigla heim með þrjú stig í kvöld,“ sagði Árni ennfremur.
433.is
Keflvíkingar komust yfir strax á 11. mínútu leiksins en það mark gerði markamaskínan Guðmundur Steinarsson en það mark kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Þá fengu Keflvíkingar innkast á vallarhelmingi Eyjamanna. Innkastið tók Jóhann Ragnar en þar nýtti hans sér vindinn vel og kastaði á nærstöng, þar var Gummi Steinars en hann skallaði boltan yfir Abel í markinu. Virkilega vel gert hjá Guðmundi.
Ómar - (Árni Freyr 9), Hilmar Geir 6, Jóhann Ragnar 6, Magnús Þór 6, Haraldur 7, Denis 6, Einar Orri 7, Frans 5, Magnús Sverrir 6 (Hörður 6), Bojan Stefán 5 (Sigurbergur 6), Guðmundur 7.
Pepsi-deild karla, Hásteinsvöllur, 20. ágúst 2012
ÍBV 0
Keflavík 1 (Guðmundur Steinarsson 11.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson (Árni Freyr Ásgeirsson 11.), Hilmar Geir Eiðsson, Jóhann R. Benediktsson, Magnús Þór Magnússon, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Hörður Sveinsson 67.), Denis Selimovic, Einar Orri Einarsson, Frans Elvarsson, Bojan Stefán Ljubicic (Sigurbergur Elísson 67.), Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Viktor Smári Hafsteinsson, Rafn Markús Vilbergsson, Eyþór Ingi Einarsson, Elías Már Ómarsson.
Rautt spjald: Frans Elvarsson (80.).
Gul spjöld: Magnús Þór Magnússon (21.), Frans Elvarsson (22.), Denis Selimovic (54.), Einar Orri Einarsson (56.), Árni Freyr Ásgeirsson (88.)
Dómari: Erlendur Eiríksson.
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Jan Eric Jessen.
Eftirlitsdómari: Ólafur Ragnarsson.
Áhorfendur: 679.
Myndir: Jón Örvar.