Fréttir

Stórleikur hjá stelpunum á fimmtudag kl. 18:30
Knattspyrna | 18. ágúst 2016

Stórleikur hjá stelpunum á fimmtudag kl. 18:30

Keflavíkurstúlkur taka á móti Fjölni á fimmtudaginn í næst síðustu umferð Íslandsmótinsins, jafnframt er um síðasta heimaleik sumarsins að ræða. Þessi sömu lið mættust s.l. sunnudag í frestuðum leik í Grafarvoginum. Brjálað rok og rigning setti mikinn svip á þann leik sem Fjölniskonur unnu 1 - 0. 

Keppnistímabilið 2017 verður í fyrsta skipti keppt í þremur deildum í meistaraflokki kvenna. Í ár er keppt í þremur riðlum í 1. deildinni. Þrjú lið úr hverjum riðli, auk liðsins með betri árangur í 4. sæti í A og B riðli tryggja sér þátttöku í 1. deildinni að ári. Tvö af þessum 10 liðum tryggja sér þó sæti í Pepsi deildinni.  A og B riðlarnir eru skipaðir liðum að sunnan en í C - riðli eru lið að austan og norðan, Keflavík er í B-riðli. Að lokinni riðlakeppninni fer fram úrslitakeppni um sæti í Pepsi deildinni. Þrjú efstu liðin í A og B riðli og tvö efstu liðin úr C-riðli komast í úrslitakeppnina, samtals 8 lið.

Þegar tvær umferðir eru eftir í riðlakeppninni er baráttan um 3. sætið í B-riðli mjög hörð á milli þriggja liða. Grindavík og Haukar hafa tryggt sér tvö efstu sætin í riðlinum, þar á eftir koma svo Fjölnir og Augnablik með 21 stig og Keflavík með 19 stig. Það er því mikið í húfi hjá stelpunum gegn Fjölni og er fólk hvatt til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar til sigurs. Leikurinn fer fram á Nettóvellinum og verður flautaður á kl. 18:30.

Hér má sjá stöðuna í B-riðli og þá leiki sem liðin eiga eftir.
Staðan í A-riðli
Staðan í C-riðli