Fréttir

Knattspyrna | 11. ágúst 2011

Stórleikur hjá stelpunum í kvöld

Það verður sannkallaður stórleikur hjá kvennaliðinu okkar í kvöld þegar topplið FH kemur í heimsókn á Nettó-völlinn í A-riðli 1. deildar kvenna.  Tvö efstu lið riðilsins fara í úrslitakeppnina og eru FH-ingar nokkur öruggir með að komast þangað.  Keflavík og HK/Víkingur berjast hins vegar um hitt sætið en fyrir leikinn er HK/Víkingur með 25 stig og á eftir að leika gegn FH en Keflavík er með 22 stig og á eftir leikinn gegn FH og heimaleik gegn Sindra í lokaumferðinni.  Okkar stúlkur eiga því ágæta möguleika á að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í lok ágúst og byrjun september.

Í síðustu umferð vann Keflavík góðan og geysilega mikilvægan sigur á liði HK/Víkings á útivelli.  Lokatölur urðu 5-1 þar sem Nína Ósk Kristinsdóttir gerði tvö mörk, Guðný Þórðardóttir skoraði úr víti og Andrea Ósk Frímannsdóttir og Fanney Þórunn Kristinsdóttir gerðu sitt hvort markið. 

Leikurinn gegn FH verður á Nettó-vellinum og hefst kl. 19:00.  Dómari leiksins verður Skúli Freyr Brynjólfsson og aðstoðardómarar þeir Ægir Magnússon og Arnar Freyr Valsson.