Stórsigur á HK og fyrsta sætið í höfn
Keflavík tryggði sér sigurinn í 1. deild og sæti í úrvalsdeild að ári með stórsigri gegn HK á Keflavíkurvelli í dag. Lokatölurnar urðu 7-0 og þarf ekki að fara mörgun orðum um yfirburði okkar manna. Í sjálfu sér þarf ekki að segja mikið um leikinn sem slíkan en hér á eftir er yfirlit yfir mörkin.
1-0: Eftir um 20 mínútna leik átti Keflavík góða sókn upp vinstri kantinn sem endaði með fyrirgjöf frá Kristjáni. Boltinn sveif yfir fjölda leikmanna í markteignum þar sem Hólmar Örn var einn á markteigshorninu. Hann lagði boltann laglega fyrir sig og sendi hann síðan efst upp í fjærhornið með föstu skoti.
2-0: Aðeins mínútu eftir fyrsta markið kom annað í kjölfarið. Eftir hraða sókn barst boltinn til Hólmars inn á miðjunni og hann sendi glæsilega sendingu inn fyrir vörnina vinstra megin þar sem Ólafur Ívar kom aðvífandi. Hann lék upp að endamörkum og sendi fastan bolta fyrir markið sem smaug framhjá Gunnleifi við nærstöngina og í netið.
3-0: Eftir um hálftíma leik sótti Keflavík upp hægri kantinn og Guðjón gaf góða fyrirgjöf yfir á fjærstöngina. Þar kom Ólafur Ívar á fleygiferð og átti fastan skalla á markið, Magnús breytti stefnu boltans lítillega þannig að hann endaði í markinu.
4-0: Þegar leikurinn hafði varað í um klukkutíma kom glæsilegasta mark leiksins. Ingvi Rafn vann boltann af miklu harðfylgi inn á miðjunni. Hann sendi laglega sendingu upp í vinstra hornið á Magnús sem lék tvo varnarmenn HK upp úr skónum áður en hann sendi góða fyrirgjöf inn á markteiginn. Þar henti Þórarinn sér fram og skallaði boltann glæsilega efst upp í markhornið. Svo sannarlega frábært mark hjá Þórarni eftir góða baráttu Ingva og góðan undirbúning Magnúsar.
5-0: Þegar um fimmtán mínútur lifðu af leiknum kom næsta mark. Scott fékk boltann á kantinum og brunaði á vörnina eins og svo oft í seinni hálfleik. Hann lék á varnarmann og skaut föstu skoti á markið. Gunnleifur varði en hélt ekki boltanum og Þórarinn náði boltanum í markteignum og sendi hann í netið. Þorarinn skoraði þar með sitt 14. mark í deildinni í sumar og er nú aðeins einu marki á eftir Þórsaranum Jóhanni Þórhallssyni sem leikur ekki meira með vegna leikbanns.
6-0: Fimm mínútur liðu og enn kom mark. Scott lék á varnarmenn HK upp við hornfánann og renndi síðan út á Guðjón sem gaf lyfti boltanum á fjærstöngina. Þar skallaði Magnús boltann aftur fyrir þar sem Kristján kom aðvífandi og þrumaði efst upp í markhornið og skoraði sitt annað mark í sumar. Gaman að sjá annan bakvörð liðsins skora eftir fyrirgjöf frá hinum en þeir Guðjón og Kristján tóku svo sannarlega virkan þátt í sóknarleiknum í þessum leik.
7-0: Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma bættu okkar menn við enn einu marki. Scott kom enn einu sinni á ferðinni upp kantinn og renndi boltanum síðan upp hornið á Harald. Miðvörðurinn kom með góða fyrirgjöf út í teig þar sem Þórarinn átti hörkuskot. Gunnleifur varði en hélt ekki boltanum og Hörður fylgdi vel eftir og skoraði úr markteignum.
Keflvíkingar gátu því fagnað stórum sigri, sæti í efstu deild að ári og sigri í 1.deild. Leikmenn og aðstandendur liðsins fögnuðu vel í leikslok með stuðningsmönnum þar sem hinir eldhressu Geirfuglar voru í fararbroddi með trommuslátt og söng.
Keflavíkurvöllur, 30. ágúst 2003
Keflavík 7 (Hólmar Örn Rúnarsson 20., Ólafur Ívar Jónsson 21., Magnús Þorsteinsson 28., Þórarinn Kristjánsson 60., 72., Kristján Jóhannsson 75., Hörður Sveinsson 90.)
HK 0
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Zoran Ljubicic, Haraldur Guðmundsson, Kristján Jóhannsson - Hólmar Örn Rúnarsson (Hörður Sveinsson 71.), Jónas Guðni Sævarsson (Ingvi Rafn Guðmundsson 46.), Stefán Gíslason (Scott Ramsay 63.), Ólafur Ívar Jónsson - Magnús Þorsteinsson, Þórarinn Kristjánsson
Varamenn: Magnús Þormar, Hjörtur Fjeldsted
Gult spjald: Guðjón Antoníusson (58.)
Dómari: Ólafur Ragnarsson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Valgeir Valgeirsson
Eftirlitsmaður: Gunnlaugur Jón Hreinsson