Stórsigur á Skaganum
Keflavík vann stórsigur á liði ÍA í Lengjubikarnum á Akranesi í gærkvöldi. Lokatölur urðu 6-1 í Akraneshöllinni. Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk og þeir Guðjón Árni Antoníusson, Marco Kotilainen, Stefán Örn Arnarson og Baldur Sigurðsson eitt mark hver. Mark ÍA skoraði Björn Bergmann Sigurðarson. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um yfirburði okkar manna í leiknum. Liðið var allt að leika vel og það var sérstaklega gaman að sjá til þeirra Marco og Nicolai sem áttu báðir stórleik og hafa verið að koma sterkir inn í Keflavíkurliðið. Keflavík er nú með 9 stig eftir fimm leiki í Lengjubikarnum. Næsti leikur liðsins er næsta fimmtudag þegar við heimsækjum Framara í Egilshöll og hefst sá leikur kl. 21:00.
Marco og Nicolai áttu góðan leik gegn Skagamönnum.
(Mynd: Jón Örvar Arason)