Stórsigur heima gegn Fram
Eftir slakt gengi á heimaveli í sumar kom loksins að því að Keflavík ynni góðan sigur á Nettó-vellinum þegar Framarar komu þangað í heimsókn í 19. umferð Pepsi-deildarinnar. Lokatölur urðu 5-0 í hörkuleik. Sigurbergur Elísson kom okkar mönnum yfir snemma leiks og einn leikmaður gestanna var svo rekinn af velli fyrir hlé. Sigurbergur skoraði aftur þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Magnús Þorsteinsson kom Keflavík í 3-0 þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka og í kjölfarið misstu Framarar annan leikmann af velli. Okkar menn gengu á lagið og Hörður Sveinsson skoraði skömmu síðar áður en Jóhann R. Benediktsson innsiglaði stórsigur með fimmta markinu.
Eftir leikinn er Keflavík í 7. sæti deildarinnar með 27 stig. Næsti leikur er útileikur gegn Selfossi fimmtudaginn 20. september kl. 17:00.
-
Leikurinn var 88. leikur Keflavíkur og Fram í efstu deild. Keflavik hefur nú sigrað í 34 sinnum, Fram 27 sinnum og 27 sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 131-116 fyrir Keflavík.
-
Elías Már Ómarsson kom inn á sem varamaður undir lok leiksins og lék sinn fyrsta leik í efstu deild. Elías er 17 ára gamall og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
- Sigurbergur Elísson skoraði þriðja og fjórða mark sitt í sumar og er þar með kominn með fjögur mörk í 21 leik í efstu deild.
- Magnús Þorsteinsson skoraði sitt þriðja mark í sumar og hann er nú kominn með 26 mörk í efstu deild fyrir Keflavík.
- Hörður Sveinsson skoraði annað mark sitt í sumar og sitt 32. mark í efstu deild. Hann er nú orðinn sjöundi markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild frá upphafi.
- Jóhann Ragnar Benediktsson skoraði annað mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild en það fyrra kom gegn Fylki í maí 2002. Það eru því rúm tíu ár milli marka hjá Jóhanni...
-
Þetta var stærsti sigur Keflavíkur í efstu deild frá því í september 2009 þegar liðið vann ÍBV 6-1 á heimavellí í síðustu umferð deildarinnar það sumar.
Fótbolti.net
,,Frábær frammistaða hjá ykkur og markmiðið var í dag að sýna bæjarbúum og okkur sjálfum hvað við getum hérna á heimavelli. Við erum búnir að drulla upp á bak á heimavelli í sumar og sýndum í dag hvers við erum megnugir," sagði Sigurbergur Elísson, leikmaður Keflavíkur eftir 5-0 sigur á Fram í dag.
,,Það er alveg sama hver skorar, það er mikilvægast að liðið fái þrjú stig og það er bónus þegar maður setur hann."
,,Þetta er hrikalega ljúft og frábært að vera kominn aftur í byrjunarliðið og sýna hvers maður er megnugur."
,,Við förum í hvern leik til að vinna og næsta verkefni er mikilvægt og það er Selfoss. Það er ekkert annað í boði en að sækja þrjú stig," sagði Sigurbergur að lokum.
Fréttablaðið / Vísir
Þjálfari Keflavíkur, Zoran Daníel Ljubicic brosti breitt eftir leikinn.
„Við vissum að þetta yrði erfitt og þeir voru kannski meira með boltann framan af leiknum en svo skorum við gott mark og þá varð þetta auðveldara.“
Keflvíkingar þekkja það mæta vel að spila færri en hafa sjaldnar verið í þeirri stöðu að vera með fleiri leikmenn á vellinum en andstæðingurinn.
„Við vissum á tímabili ekkert hvað við áttum að gera, við erum miklu vanari því að vera manni færri.“ sagði Zoran með bros á vör.
Ómar 6, Grétar Atli 7, Jóhann Ragnar 7, Magnús Þór 7, Haraldur 7, Sigurbergur 8, Einar Orri 7 (Elías Már -), Denis 6, Frans 7, Magnús Sverrir 6 (Bojan Stefán -), Guðmundur 7 (Hörður 6).
Morgunblaðið / Mbl.is
Þjálfarateymi Keflvíkinga hafði undirbúið leikinn nokkuð vel og nokkuð augljóst að þeir ætluðu sér ekki að hafa falldrauginn bankandi uppá í síðustu umferðum deildarinnar. Nettóvöllurinn hefur verið Keflvíkingum erfiður viðureignar í allt sumar og því var tekið það ráð að skipta um varamannaskýli og hitaði liðið upp á þeim helmingi sem gestirnir eru vanir að hita upp á. Ef þetta var það eina sem þurfti til hljóta þjálfararnir að naga sig í handarbökin að hafa ekki fattað þetta fyrr í sumar. »Ég veit ekki alveg muninn á liðinu núna og í allt sumar en stuðningsmannasveitin hjálpaði vissulega. Svo tók þjálfarateymið smá sálfræði á þetta hjá okkur og hugsanlega hafði það eitthvað að segja. Sumarið hjá mér er búið að vera erfitt, meiðsli, inn og út úr hópnum. En Zoran veit hvernig leikmaður ég er og gaf mér tækifærið og ég nýtti það vel,« sagði Sigurbergur Elísson.
MM: Sigurbergur.
M: Jóhann Ragnar, Magnús Þór, Haraldur Freyr, Einar Orri, Frans, Guðmundur.
Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar náðu í langþráðan sigur á heimavelli í Pepsi-deild karla í fótbolta gær, en þá unnu þeir stórsigur á liði Fram, 5-0. Glöggir áhorfendur hafa sjálfsagt tekið eftir því að Keflvíkingar hituðu upp á vallarhelmingi Nettóvallarins sem snýr að íþróttahúsinu við Sunnubraut og svo skiptu þeir einnig um varamannaskýli en vanalega sitja varamenn í skýlinu sem er nær Hringbrautinni.
Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga viðurkenndi að þarna hafi Keflvíkingar verið að reyna að breyta til en þeim hefur ekki gengið sérlega vel á heimavelli í sumar. „Okkur hefur gengið betur á útivelli í sumar og ákváðum að vera útiliðið í gær,“ sagði Zoran léttur í bragði í samtali við Víkurfréttir. „Það var ákveðin sálfræði í þessu og maður getur svo sem sagt ýmislegt eftir á, þar sem þetta virðist hafa heppnast.“
Zoran hrósaði engu að síður leikmönnum sínum enda vinnast leikirnir ekki í varamannaskýlunum. „Þeir lögðu sig alla fram og sýndu þetta Keflavíkurhjarta í gær, þannig unnum við leikinn.“ þjálfarinn viðurkenndi að honum hafi verið létt enda var þetta sannkallaður sex stiga leikur.
„Þarna voru að mætast lið sem voru að berjast fyrir lífi sínu og það var allt undir. Nú förum við aðeins rólegri í næsta verkefni en þar mætum við öðru liði sem er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni,“ en þar á Zoran við lið Selfoss en sá leikur fer fram á fimmtudag. Zoran segir að Keflavíkurliðið geti með með góðu móti komist upp töfluna í lok móts en það sé algerlega undir leikmönnum komið, möguleikinn sé sannarlega til staðar.
433.is
Haraldur Freyr fyrirliði Keflavíkur var að vonum sáttur með sína menn eftir 5-0 sigurinn gegn Fram.
"Það er frábært, að vinna bara heima er ótrúlega góð tilfinnig. Það hefur ekki gerst oft á þessu tímabili. Þetta var hrikalega ljúft,“ sagði Haraldur Freyr við 433.is í kvöld
Fram lenti í því að missa tvo leikmenn af velli í þessum leik og það hafði vitaskuld áhrif á leikinn.
"Þetta náttúrulega, kannski var þannig leikur að á endanum voru þeir tveimur færri og erfitt fyrir þá. Við erum náttúrulega búnir að fá að kynnast því í síðustu þremur leikjum að vera einum færri. Þannig að loksins var þetta öðruvísi að vera einum fleiri og við einhvernvegin gerðum bara allt rétt þegar þeir missa mann útaf. Við völtum í þá og vinnum sanngjarnt að lokum.“
Enginn annar en Sir Alex Ferguson segir að öll vafaatriði jafnist út yfir heilt tímabil en er Haraldur sammála honum?
"Jú, ætli það sé ekki hægt að segja það, þessi heppni og óheppni og þú áttir að taka stig þarna og allt það. Það er oft þannig í þessu, en þú skapar þína eigin heppni í þessu.“
Þessi leikur var virkilega mikilvægur því með tapi þá hefði Keflavík alvarlega geta sogast niður í fallbaráttuna.
"Undir niðri kraumaði alveg, að með tapi værum við alvarlega komnir í fallbaráttu. Þetta var svokallaður sex stiga leikur. En með sigri þá erum við allt í einu komnir fjórum stigum á eftir öðru sæti, nema Stjarnan vinni FH (staðan á þessum tímapubkti var 1-0 fyrir Stjörnunni). Þetta mjög skrýtin deild þannig séð. Með tapi erum við í bullandi fallbaráttu en með sigri fjórum stigum frá öðru sæti. Það er bara að halda áfram og klára deildini með sæmd. Við eigum erfiðan leik um næstu helgi gegn Selfossi sem er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni.“
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 17. september 2012
Keflavík 5 (Sigurbergur Elísson 18., 62., Magnús Sverrir Þorsteinsson 70., Hörður Sveinsson 73., Jóhann R. Benediktsson 81.)
Fram 0
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Grétar Atli Grétarsson, Jóhann R. Benediktsson, Magnús Þór Magnússon, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Sigurbergur Elísson, Einar Orri Einarsson (Elías Már Ómarsson 83.), Denis Selimovic, Frans Elvarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Bojan Stefán Ljubicic 77.), Guðmundur Steinarsson (Hörður Sveinsson 70.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Rafn Markús Vilbergsson, Daníel Gylfason.
Gul spjöld: Frans Elvarsson (54.), Grétar Atli Grétarsson (72.).
Dómari: Gunnar Jarl Jónsson.
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Smári Stefánsson.
Eftirlitsdómari: Jón Þór Ágústsson.
Áhorfendur: 713.
Myndir: Eygló og Jón Örvar.