Fréttir

Knattspyrna | 30. júní 2005

Stórsigur hjá 3. flokki kvenna

3. flokkur kvenna tók á móti KR á aðalleikvangnum okkar í gærkvöldi.  Búist var við hörkuviðureign þar sem að þessi tvö lið sátu í tveimur efstu sætunum í A-deild.  Við vekjum athygli á að við erum með fínar myndir frá leiknum sem komast vonandi inn á síðuna mjög fljótlega.

Leikurinn byrjaði ágætlega hjá báðum liðum og virtist þetta ætla að verða baráttuleikur.  Lið KR var aðeins meira með boltann fyrstu mínuturnar og sóttu nokkuð á okkur en án þess þó að skapa sér einhver færi.  En á 12. mínútu áttum við fína sókn upp hægri kantinn sem endaði með fyrirgjöf frá Andreu fyrir mark KR. Þar var Helena Rós mætt og átti hún ekki í erfiðleikum með að skora.  Nú fóru okkar stelpur í gang og sýndu hreint frábæran leik og vel útfærðar sóknir sem sköpuðu ávallt hættu við mark KR.  Andrea bætti við öðru marki á 22. mínútu eftir að hafa átt skot sem markvörður KR varði en hélt ekki knettinum og eftirleikurinn auðveldur.  Það bar til tíðinda að markverði KR var vikið af leikvelli á 24. mínútu eftir að hafa varið með hendi fyrir utan teigs er Karen Sævars var að sleppa í gegn og KR-ingar orðnar einum leikmanni færri.  Rebekka skoraði svo gullfallegt mark á 27. mínútu eftir hornspyrnu frá Birnu.  Rebekka stökk hæst allra og hamraði boltann með höfðinu í þverslá og inn.  Á 32. mínútu náði Erna að skora fyrir KR með góðu skoti utan úr teig og átti Anna ekki möguleika að koma í veg fyrir þetta mark.  Mínútu seinna eða á þeirri 33., eftir að hafa tekið miðju, áttum við alveg frábæra sókn þar sem boltinn var sendur á Birnu úti á hægri kanti.  Hún lék upp að endamörkum með boltann og sendi flottan bolta fyrir mark KR.  Þar var Helena Rós mætt og gerði hún sér lítið fyrir og sendi knöttinn í markið með þrumuskalla.  Staðan 4-1 er blásið var til leikhlés.

Eins og oft vill verða í svona stöðu þegar mætt er aftur til leiks eftir hlé er ekki sami ákafinn og leikurinn róast nokkuð, það gerðist einmitt í þessum leik.  Okkar stelpur réðu þó algjörlega gangi leiksins og á 52. mínútu náði Karen Sævars að skora fimmta markið eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn KR, staðan orðin 5-1.  Stelpurnar hefðu getað bætt við fleiri mörkum í þessum leik því færin fengu þær til þess en það er ekki hægt að ætlast til að öll færi nýtist.  Það er einmitt þessi spenna sem gerir fótboltann svo skemmtilegan.  Enn og aftur eiga stelpurnar rosalegt hrós fyrir hvað þær eru að standa sig vel og eru að gefa sig í leikinn.  Nú er bara að halda haus og einbeita sér að næsta leik sem verður gegn Val mánudaginn 5. júlí.  Ekki þýðir að dvelja lengi við þá leiki sem búnir eru heldur einbeita sér að þeim leik.

ÁFRAM KEFLAVÍK.

3. flokkur, Keflavík - KR: 5-1 (Helena Rós Þórólfsdóttir 2,Andrea Frímannsdóttir, Karen Sævarsdóttir, Rebekka Gísladóttir)

Gult spjald: Andrea Ósk (Keflavík)
Rautt spjald: Sigrún Agnarsdóttir (KR)

Keflavík: Anna Rún, Bergþóra, Fanney, Helga, Rebekka, Eva, Hildur, Helena Rós, Birna, Andrea, Karen S., Kristín, Sigurbjörg, Jóna, Karen H., Sigrún.


Rebekka skorar með glæsilegum skalla.
(Mynd:
Jón Örvar Arason)