Stórsigur hjá 4. flokki kvenna
4. flokkur kvenna tók á móti liði HK í dag. Leikurinn skipti okkur miklu máli þar sem staðan í A-deildinni var ekki góð fyrir leikinn. Stelpurnar voru ákveðnar í að sýna sitt rétta andlit og komu mjög ákveðnar til leiks. Leikurinn var ekki nema einnar mínútu gamall þegar Sveindís náði forystunni fyrir okkur með góðu marki eftir að hafa hafa fengið knöttinn til sín á hægri kantinn og tekið sprettinn inn í teig þar sem hún læddi boltanum framhjá markverði HK. Eftir markið var nánast eitt lið á vellinum sem var Keflavík. Stelpurnar réðu algjörlega gangi leiksins og á 11. mínútu bætti Íris við marki. Það var ekki ósvipað fyrsta markinu nema að Íris lék alveg upp að endamörkum og náði að skora úr mjög þröngu færi. Stelpurnar ætluðu sér ekki að missa niður þessa forystu eins og gerðist í leiknum gegn ÍA. Sveindís bætti við sínu öðru marki á 16. mínútu og kom okkur í góða stöðu 3-0. Þrátt fyrir að sækja nánast látlaust að marki HK og fá fín færi náðu þær ekki að bæta við mörkum fyrir hlé.
Sama var upp á teningnum í seinni hálfleik og í þeim fyrri,aðeins eitt lið svo gott sem á vellinum. Á 52. mínútu var dæmd vítaspyrna á HK eftir að Íris var felld í teignum. Nú kom Zohara markvörður trítlandi yfir völlinn til að framkvæma spyrnuna. Henni urðu ekki á nein mistök og skoraði af miklu öryggi. Tveimur mínútum seinna fengum við aukaspyrnu vel fyrir utan teig og gerði Fanney sér lítið fyrir og hamraði knöttinn í netið. Ekkert var slakað á þrátt fyrir að stelpurnar væru með unninn leik í höndunum. Þær vildu meira, þvílík var baráttan og leikgleðin. En þrátt fyrir að fá fjöldann allan af færum bættu þær ekki við nema einu marki og það mark skoraði Íris eftir að hafa fylgt eftir skoti á mark HK sem markvörður þeirra varði en náði ekki að halda knettinum. Stelpurnar hafa ekki leikið svona vel síðan í tveimur fyrstu leikjum sínum í sumar. Nú sýndu þær hvað hægt er að gera þegar að liðið nær að þjappa sér saman sem ein heild. Þá er vert að geta frammistöðu Guðbjargar og Marsibil sem voru að stíga sín fyrstu skref með A-liði 4. flokks en þær eru í 5. flokki og stóðu þær fyrir sínu og vel það. Einnig er gaman að sjá að Guðrún Ólöf er kominn aftur af stað eftir að hafa fótbrotnað rétt fyrir mót.
4. flokkur, A-lið: Keflavík - HK: 6-0 (Sveindís 2, Íris 2, Fanney, Zohara)
Keflavík: Zohara, Ingibjörg, Laufey, Ólína, Jóhanna, Sveindís, Fanney, Bagga, Eyrún, Íris, Guðrún, Helena, Guðbjörg, Marsibil.
/media/5/mynd:guðrúnólöfléksinnfyrstaleikísumareftiraðhafameiðstréttfyrirmót.