Fréttir

Knattspyrna | 9. júní 2004

Stórsigur hjá stelpunum í 3. flokki

Í gærkvöldi tók 3. flokkur kvenna móti Fjölni á Iðavöllum.  Lokatölur leiksins urðu níu mörk gegn einu, okkar stelpum í vil.

Leikurinn var ekki nema 42 sekúndna gamall þegarr Helena Rós setti fyrsta markið  með langskoti utan af kanti sem sveif yfir markmanninn og í fjærhornið.  Á 8. mínútu fékk Helena Rós boltann eftir slæma markspyrnu Fjölnisstúlkna og afgreiddi knöttinn í netið en rétt áður hafði boltinn smollið í innannverða stöngina fjær eftir hornspyrnu frá Evu.  Hildur bætti síðan við marki á 9. mínútu eftir að hafa tekið við fyrirgjöf Helenar.  Staðan eftir níu mínútna leik orðin 3-0.  Hver stórsóknin dundi á mark Fjölnis; á 14. mínútu átti Hildur hörkuskot í stöng og stuttu seinna átti Eva hörkuskot rétt yfir markslána.  Á 21. mínútu tók Eva horn og nú mætti Sonja með sinn koll og stangaði knöttinn í netið.  Birna Marín skoraði svo fimmta markið á 23. mínútu með skoti utan af kanti og í fjærhornið.  Sjötta og síðasta markið fyrir hlé setti Helena Rós og fullkomnaði þar með þrennu sína þegar hún fékk sendingu frá Rebekku og sneri á varnarmann, komst í gegn og renndi boltanum af öryggi framhjá markmanni og í netið.

Á 38. mínútu átti Birna Marín hörkuskot í þverslá, knötturinn barst til Justynu sem tók skotið og aftur small boltinn í slánni.  En á 41. mínútu átti Eva stungusendingu á Hildi sem skoraði 7-0.  Á 42. mínútu tók Helena á rás upp vinstri kantinn, lék á þrjár Fjölnisstelpur og kláraði þennan sprett með góðu skoti en enn og aftur  var þversláin að þvælast fyrir.  Á 45. mínútu fengu Fjölnisstelpur aukaspyrnu nokkuð fyrir utan teig.  Tekið var skot á markið og virtist Anna hafa þennan bolta en hann hrökk úr örmum hennar fyrir fætur Fanneyjar sem afgreiddi knöttinn í netið.  Á 66. mínútu skoraði Karen eftir fyrirgjöf frá Sigrúnu og fjórum mínutum seinna var Karen aftur á ferðinni þegar hún fékk stungusendingu frá Mundu og átti greiða leið að markinu og afgreiddi knöttinn af öryggi í netið.  Lokatölur 9-1.
 
Þó fyrirstaðan hafi kannski ekki verið mikil í þessum leik eins og tölurnar gefa til kynna þá voru okkar stelpur einfaldlega að sýna algjöran  toppleik eins og þær gera best þegar að þær ná sér á strik.  Boltinn var látinn  ganga vel á milli leikmanna í einni til tveimur snertingum og kantarnir notaðir vel.  Við það riðlaðist allur varnarleikur gestanna og að sama skapi vorum við að fá fullt af færum.  Miðjumenn okkar hirtu allt upp á miðjuni og unnu alla skallabolta á því svæði.  Framlínan var sífellt að ógna með hraða og baráttu þar sem Andrea baráttuljón fór fyrir sínum mönnum.  Ekki má gleyma  vörninni sem var mjög heilsteypt í öllum sínum aðgerðum, þær gjörsamlega stoppuðu allar sóknir gestana í þessum leik.  Anna Rún átti frekar náðugan dag í markinu.

Ekki er á neina hallað í þessum leik svo góðar voru þær allar en stúlkur þessa  leiks voru Elísabet G. Björnsdóttir og Helena Rós Þórólfsdóttir.

3. flokkur kvenna:
Keflavík - Fjölnir: 9-1 (Helena Rós Þórólfsdóttir3, Hildur Haraldsdóttir2, Karen Sævarsdóttir 2, Sonja Sverisdóttir,  Birna Marín Aðalsteinsdóttir)

Keflavík:
Anna Rún Jóhannsdóttir, Bergþóra Sif Vigfúsdóttir (Guðmunda Gunnarsdóttir), Rebekka Gísladóttir, Elísabet G. Björnsdóttir, Justyna Wróblewska (Sara Björg Guðjónsdóttir), Sonja Sverrisdóttir (Birna Ásgeirsdóttir), Eva Kristinsdóttir, Helena Rós Þórólfsdóttir, Birna Marín Aðalsteinsdóttir (Karen Sævarsdóttir), Hildur Haraldsdóttir (Sigrún Guðmundsóttir), Andrea Frímannsdóttir.

Elís Kristjánsson, þjálfari