Stórsigur hjá stelpunum í fyrsta leik
Kvennalið Keflavíkur hóf leik í 1. deildinni á sunnudag þegar þær mættu liði Draupnis frá Akureyri í Reykjaneshöllinni. Það er skemmst frá því að segja að stelpurnar fengu fljúgandi start í deildinni. Þær sóttu frá fyrstu mínútu en markið lét á sér standa og Draupnis-stúlkur reyndu að beita skyndisóknum. Þær gengu misvel en eftir eina slíka pressuðu þær markvörðinn, uppskáru mark og komust þvert á gang leiksins í 1-0. Gestirnir hefðu stuttu síðar getað komist í 2-0 en Anna Rún fórnaði sér og varði með andlitinu! Eftir þetta skoruðu okkar stelpur og þá var ekki aftur snúið. Þær settu þrjú í viðbót í fyrri hálfleik og staðan 4-1 í hálfleik. Síðari hálfleikur var eign Keflavíkur frá upphafi til enda þær settu tíu mörk og endaði fyrsti leikur í ár því 14-1.
Mörk Keflavíkur: Nína Ósk Kristinsdóttir með 6 mörk, Agnes Helgadóttir 3, Karitas S. Ingimarsdóttir 2, Andrea Ósk Frímannsdóttir 1, Guðný P. Þórðardóttir 1, Fanney Þórunn Kristinsdóttir 1. Mark Draupnis skoraði Rakel Óla Sigmundsdóttir.