Stórsigur í lokaleiknum
Það var frábært að vera í Laugardalum í gær og sjá okkar menn þegar þeir unnu stórsigur 1-6 á Fram í lokaleik Landsbankadeildarinnar. Strákarnir spiluðu leikinn mjög vel og ef eitthvað er þá hefði sigurinn getað orðið enn stærri, svo miklir voru yfirburðirnir hjá okkar mönnum. Það voru ekki liðnar nema 12 mínútur af leiknum þegar Þórarinn skoraði með skalla eftir góðan undirbúning frá Zoran og Scotty. Á 32. mínútu skoraði Guðmundur Steinars eftir frábæra sendingu frá Zoran. Staðan 0-2 í hálfleik og allt leit út fyrir að Fram væri að yfirgefa deildina.
Þriðja markið; Bói búinn að setja hann í bláhornið.
Í seinni hálfleik var eins og það væri bara eitt lið inná vellinum, slíkir voru yfirburðirnir. Hólmar Örn kom fljótlega inn á fyrir Guðmund og var ekki búinn að vera lengi inn á þegar hann skoraði þriðja markið. Hólmar setti hann glæsilega upp í markhornið og enn var það Zoran sem lagði markið upp. Á 85. mínútu skoraði Hörður fjórða markið, fékk góða sendingu (... og frá hverjum haldið þið... Zoran enn og aftur ) inn fyrir vörnina og skoraði laglegt mark. Hörður hafði komið inn á fyrir Scotty um miðjan seinni hálfleik. Fróði Benjaminsen skoraði svo fyrir Fram á 86. mínútu. Hörður skoraði svo stórglæsilegt mark á 88. mínútu, sitt annað og fimmta mark Keflvíkinga. Það voru svo komnar 90 mínútur á klukkuna þegar Zoran, hver annar, sendi góða sendingu inn fyrir vörn Fram þar sem Hólmar Örn skoraði örugglega og stórsigur var staðreynd.
Keflavíkurliðið var að spila mjög vel og það var virkilega gaman að sjá hvað leikmennirnir höfðu gaman af þessu öllu saman. Ég get ekki annað en minnst á þátt Zoran í mörkunum fimm sem hann lagði upp svo snilldarlega. Glæsilegur sigur sem gefur liðinu byr undir báða vængi fyrir undanúrslitaleikinn gegn HK næstu helgi. Við enduðum í 5. sæti deildarinnar með 24 stig. Framarar sluppu við fall eina ferðina enn, þökk sé Grétari Hjartarsyni sem jafnaði fyrir Grindvíkinga á síðustu mínútu gegn Víking eftir að Víkingar höfðu verið 1-3 yfir. FH varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti og óskum við þeim innilega til hamingju.
Þó svo að Landsbankadeildinni sé lokið, þá er tímabilinu ekki lokið fyrir Keflavík. Undanúrslitin í bikarnum eru næstu helgi á Laugardalsvellinum gegn HK, og það er skyldumæting á völlinn!
Laugardalsvöllur, 19. september 2004
Fram 1 (Fróði Benjaminsen 87.)
Keflavík 3 (Þórarinn Kristjánsson 12., Guðmundur Steinarsson 32., Hólmar Örn Rúnarsson 76., 90., Hörður Sveinsson 85., 90.)
Keflavík (4-4-2): Magnús Þormar - Guðjón Antoníusson, Haraldur Guðmundsson, Stefán Gíslason, Ólafur Ívar Jónsson (Ólafur Jón Jónsson 78.) - Zoran Ljubicic, Ingvi Rafn Guðmundsson, Jónas Guðni Sævarsson, Scott Ramsay (Hörður Sveinsson 75.) - Þórarinn Kristjánsson, Guðmundur Steinarsson (Hólmar Örn Rúnarsson 86.)
Varamenn: Guðmundur Þórðarson, Þorsteinn Georgsson
Gul spjöld: Guðjón Antoníusson (49.)
Dómari: Kristinn Jakobsson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Einar Sigurðsson
Eftirlitsdómari: Jón Sigurjónsson
Áhorfendur: 1501
Texti og mynd: Jón Örvar Arason