Stórsigur í lokaleiknum
Keflvíkingar gjörsigruðu ÍBV 6-1 í lokaleik sínum í Pepsí-deildinni á Sparisjóðsvellinum á laugardaginn. Keflavík var með yfirburði allan leikinn og hefðu hæglega getað unnið stærri sigur. Veðrið var ekki alveg eins og best verður á kosið; snjókoma, haglél, rigning, slydda og mikill vindur sem stóð á annað markið. Keflavík byrjaði á móti vindi og fór betur af stað. Á 20. mínútu skoraði Alen með skalla eftir hornspyrnu. ÍBV jafnaði á 30. mínútu en Guðmundur kom Keflavík svo yfir í lok hálfleiks með góðu marki. Staðan 2-1 í hálfleik og leikmenn voru fegnir að komast inn í hlýjuna enda veðrið slæmt.
Seinni hálfleikurinn var eign Keflavíkur og Guðmundur skoraði skemmtilega með hælspyrnu á 65. mínútu. Haraldur Freyr skoraði svo gott mark eftir hornspyrnu á 81. mínútu. Það var svo Símun sem skoraði tvö mörk með stuttu millibili á 83. og 85. mínútu og stórsigur í höfn. Guðjón Árni og Einar Orri voru í banni og þeir Brynjar Örn og Nicolai meiddir. Fyrirliðinn okkar hann Hólmar Örn var settur í hægri bakvörðinn og stóð sig mjög vel og í vinstri bakverðinum lék Sigurður Gunnar Sævarsson sinn fyrsta leik í efstu deild og stóð sig vel.
Keflavík spilaði þennan leik mjög vel þrátt fyrir mjög svo erfiðar aðstæður. Menn létu boltann ganga vel á milli sín, sendingar voru góðar og baráttan til fyrirmyndar. Liðið endaði í 6. sæti deildarinnar með 33 stig. Nú fá strákarnir kærkomið frí í einhverjar vikur og svo hefjast æfingar fyrir næsta tímabil.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Hólmar Örn Rúnarsson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Sigurður Gunnar Sævarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson (Magnús Þór Magnússon 86.), Símun Eiler Samuelsen, Jóhann Birnir Guðmundsson (Magnús Þórir Matthíasson 86.), Guðmundur Steinarsson og Haukur Ingi Guðnason (Jón Gunnar Eysteinsson 78.)
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Bessi Víðisson, Hörður Sveinsson, Sverrir Þór Sverrisson.
Áhorfendur: Um 500 manns mættu í þessu brjálaða veðri og þökkum við þeim fyrir mætinguna.
Dómari: Kristinn Jakobsson.
Á vef Víkurfrétta eru viðtöl við Kristján þjálfara, Hólmar Örn fyrirliða og Hauk Inga ásamt góðu myndasafni af leiknum.
Gummi skorar laglega með hælspyrnu og kemur Keflavík í 3-1.