Stórt tap á Hlíðarenda
Afleitur seinni hálfleikur gerði út um leikinn gegn Val á Hlíðarenda í 6. umferð Pepsi-deildarinnar. Eftir ágætan fyrri hálfleik af okkar hálfu gekk ekkert upp í þeim seinni og Valsmenn gengu á lagið. Heimamenn gerðu þá fjögur mörk, Kolbeinn Kárason gerði tvö þeirra og þeir Matthías Guðmundsson og Kristinn Freyr Sigurðsson eitt hvor.
Næsti leikur er heimaleikur gegn Grindavík í bikarnum miðvikudaginn 6. júní kl. 19:15.
-
Leikurinn var 90. leikur Keflavíkur og Vals í efstu deild. Þetta var 34. sigur Vals, Keflavík hefur unnið 30 og 26 hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 132-138 fyrir Val.
-
Þetta var fyrsta tap Keflavíkur á útivelli gegn Val í efstu deild síðan 1997. Síðan höfðu liðin leikið tíu sinnum á heimavelli Vals og hafði sex þeirra leikja lokið með jafntefli en Keflavík unnið fjóra.
-
Viktor Smári Hafsteinsson lék sinn fyrsta leik í sumar en hann kom inn fyrir Jóhann R. Benediktsson sem var í leikbanni. Ísak Örn Þórðarson var í fyrsta skipti í leikmannhópnum í sumar og Sigurbergur Elísson var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu en hann hafði komið inn á sem varamaður í fyrstu fimm leikjunum.
,,Ég vil meina að það hafi verið eitt crucial atriði, leikurinn vó á þessu atviki," sagði Jóhann Birnir Guðmundsson leikmaður Keflvíkinga eftir 4-0 tap liðsins gegn Val í kvöld.
,,Við eigum að fá víti, ég er að stinga mér inn fyrir Atla og hann gefur mér nett olnbogaskot inni í teig. Markmaðurinn, ég man ekki hvað hann heitir, bakkar á línunni og er ekki að koma út á móti boltanum. Ég fer út af með sprungna vör og þeir fara upp og skora, 1-0."
Keflvíkingar voru slakir í síðari hálfleik þar sem þeir fengu fjögur mörk á sig.
,,Ég hef enga afsökun fyrir því að við höfum skitið á okkur. Þetta var jafn leikur fram að fyrsta markinu en eftir það brotnum við gjörsmalega."
,,Þetta fór illa og hefði getað farið verr. Það versta við þetta er að við hengdum haus og virtumst gefast upp, það er ekki hægt og ekki ásættanlegt."
Fréttablaðið / Vísir
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, var ánægður með sína menn í kvöld og þá sérstaklega hvernig liðið brást við markaleysinu í fyrri hálfleik.
„Við lögðum leikinn upp með það í huga að pressa Keflvíkingana á ákveðnum svæðum en leikurinn spilaðist öðruvísi en við bjuggumst við í fyrri hálfleik." sagði Kristján.
„Við löguðum það í hálfleiknum og þá small þetta um leið. Hugarfar leikmanna var gott og mér fannst liðið eiga góðan leik, heilt yfir. Kolbeinn var svo í byrjunarliðinu í fyrsta sinn og nýtti sitt tækifæri mjög vel."
Valur hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir kvöldið en Kristján hafði ekki of miklar áhyggjur af því. „Þetta er bara vinna og snýst ekki um annað en að við, bæði leikmenn og þjálfarar, haldi áfram að sinna okkar vinnu. Margir hafa talað um að mótið verði jafnt og kannski verður það raunin. Ég hafði alla vega ekki áhyggjur af þessu."
Ómar 3, Grétar Atli 4, Viktor Smári 5, Einar Orri 4, Haraldur 5, Denis 3, Frans 5 (Arnór Ingvi 5), Sigurbergur 5 (Magnús Sverrir 5), Jóhann Birnir 6, Hilmar Geir 4, Guðmundur 6 (Bojan 4).
Morgunblaðið / Mbl.is
Mörk breyta fótboltaleikjum er oft sagt og skrifað og það sannaðist í veðurblíðunni á Hlíðarenda í gær þar sem Valsmenn unnu stórsigur á Keflvíkingum, 4:0. Eftir heldur dapran fyrri hálfleik var staðan markalaus þar sem Keflvíkingar voru kannski heldur skárri aðilinn, en á fyrsta stundarfjórðungnum í seinni hálfleik upplifðu Keflvíkingar martröð. Valsmenn skoruðu þrjú mörk á þessum kafla, þar af tvö á fyrstu þremur mínútunum, og þar með voru úrslitin ráðin. Kolbeinn Kárason fékk tækifæri í byrjunarliðinu í fyrsta sinn á leiktíðinni og þessi stóri og stæðilegi framherji, sem hefur reynt fyrir sér í hnefaleikum, þakkaði traustið. Hann skoraði tvö af fyrstu þremur mörkum Hlíðarendaliðsins og eftir heldur bitlausan sóknarleik í leikjunum á undan þessum kom kraftur í fremstu víglínu Valsmanna og þá einkum og sér í lagi í seinni hálfleik.
M: Sigurbergur, Jóhann Birnir.
433.is
Valur vann í kvöld frábæran og kærkominn 4-0 sigur gegn Keflavík og batt þar með enda á þriggja leikja taphrinu. Fyrri hálfleikurinn var skelfilega leiðinlegur en Valsarar stigu svo sannarlega upp í þeim síðari og unnu verðskuldað.
Í raun er ekki hægt að eyða mörgum orðum í fyrri hálfleikinn. Jafnræði var með liðunum og mikið miðjumoð. Færin voru af einkar skornum skammti en heimamenn voru kannski ívið líklegri til að skora, ef hægt er að segja það. Hins vegar börðust bæði lið af krafti en gæðin í leiknum voru ekki mikil fyrstu 45 mínúturnar.
Ómar 3, Grétar Atli 4, Viktor Smári 4, Einar Orri 4, Haraldur 4, Denis 4, Frans 5 (Arnór Ingvi 5), Sigurbergur 5 (Magnús Sverrir 5), Jóhann Birnir 6, Hilmar Geir 5, Guðmundur 5 (Bojan 5).
Pepsi-deild karla, Vodafone-völlurinn, 31. maí 2012
Valur 4 (Kolbeinn Kárason 47., 59., Matthías Guðmundsson 48., Kristinn Freyr Sigurðsson 87.)
Keflavík 0
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Grétar Atli Grétarsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Einar Orri Einarsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson, Denis Selimovic, Frans Elvarsson (Arnór Ingvi Traustason 67.), Sigurbergur Elísson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 67.), Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson (Bojan Stefán Ljubicic 45.).
Varamenn: Bergsteinn Magnússon, Magnús Þór Magnússon, Daníel Gylfason, Ísak Örn Þórðarson.
Gul spjöld: Sigurbergur Elísson (4.), Frans Elvarsson (6.), Einar Orri Einarsson (83.).
Dómari: Erlendur Eiríksson.
Aðstoðardómarar: Smári Stefánsson og Sverrir Gunnar Pálmason.
Eftirlitsdómari: Jón Sigurjónsson.
Áhorfendur: 1273.
Færi en ekkert mark...
Háloftaleikfimi á Hlíðarenda.