Stórt tap en samt "sigur" hjá 4. flokki
Í gær, fimmtudag, lauk 4. flokkur karla keppni á Íslandsmótinu í ár. Þá léku Keflvíkingar gegn Víkingum í Víkinni og var leikurinn nánast úrslitaleikur um það hvort liðið næði að halda sæti sínu í A-riðli (efstu deild). Víkingspiltar þurftu að sigra Keflavík 6-0 til þess að sleppa við fall! Það blés ekki byrlega fyrir piltana okkar í fyrri hálfleik þar sem Víkingar pressuðu stíft að marki okkar og höfðu náð að setja 4 mörk þegar blásið var til hálfleiks!!! Keflvísku piltarnir áttu afar slakan hálfleik þar sem alla baráttu og vilja vantaði í liðið. Síðari hálfleikur var öllu skárri en þó héldu Víkingar áfram að sækja stíft að marki Keflvíkinga þar sem þeir þurftu 2 mörk til að halda sér uppi. Það var magnþrungin spennan í Víkinni þegar Víkingar komust í 5-0 þegar um 10 mínútur lifðu af leiknum og útlitið orðið all svart! En Keflvíkingar stóðust lokaáhlaupið og "fögnuðu" 5-0 ósigri sem dugði til þess að halda sæti sínu í riðlinum. Það á eflaust ekki eftir að gerast oft að svo stóru tapi sé fagnað! Á eðlilegum degi eiga piltarnir að geta sigrað þetta Víkingslið en pressan fór heldur illa með þá að þessu sinni, a.m.k. í fyrri hálfleik. Það var vitað í upphafi sumars að baráttan yrði hörð að halda sæti sínu í riðlinum. Markmið sumarsins var að hanga uppi og það tókst! Til hamingju með það piltar. Að ári spila Keflvíkingar því í efstu deild í 4. flokki karla, 5. flokki karla og 3. flokki kvenna. 2. flokkur karla er í hörkubaráttu um að komast upp í A-riðil. Markmiðið félagsins er að sjálfsögðu að eiga lið í A-riðli í öllum flokkum.
Keflavík lék einnig gegn Víkingum í B-liða keppninni í gær, þar höfðu Víkingar einnig betur 3-2 í hörkuleik. Víkingar komust í 1-0 snemma leiks en Stefán Geirsson jafnaði um miðjan hálfleikinn. Rétt fyrir hálfleik náðu Víkingar forystunni á nýjan leik og stóðu leikar því 2-1 í hálfleik. Víkingar bættu enn við marki og komust í 3-1 en þá tóku Keflvíkingar við sér og Oddur Gunnarsson gerði glæsilegt mark um 10 mínútum fyrir leikslok. Keflvíkingar pressuðu stíft í lokin og fengu fjölmörg færi til þess að jafna en höfðu ekki heppnina með sér að þessu sinni og lokatölur því 3-2.
Hér má sjá lokastöðuna í A-liða keppninni:
Hér má sjá lokastöðuna í B - liða keppninni: