Fréttir

Stórt tap gegn Val
Knattspyrna | 28. ágúst 2012

Stórt tap gegn Val

Það var fátt um fína drætti í leik okkar manna þegar þeir töpuðu gegn Val á heimavelli í 17. umferð Pepsi-deildarinnar.  Lokatölur urðu 4-0 en Kolbeinn Kárason kom gestunum yfir eftir um stundarfjórðungs leik.  Kolbeinn skoraði svo aftur skömmu fyrir leikslok og Indriði Áki Þorláksson bætti við tveimur mörkum í blálokin.

Eftir leikinn er Keflavík í 6.-7. sæti deildarinnar með 24 stig.  Næsti leikur er útivelikur gegn FH á Kaplakrikavelli mánudaginn 3. september kl. 18:00.

  • Leikurinn var 91. leikur Keflavíkur og Vals í efstu deild.  Valur hefur nú sigrað í 35 sinnum, Keflavík 30 sinnum og 26 sinnum hefur orðið jafntefli.  Markatalan er 132-142 fyrir Val.
      
  • Valur vann fyrri leik liðanna í sumar einnig 4-0.  Þetta er þriðji leikurinn í röð hjá Keflavík þar sem úrslitin verða þau sömu og í fyrri umferð Pepsi-deildarinnar; 2-3 tap gegn ÍA, 1-0 sigur á ÍBV og 0-4 tap gegn Val.
      
  • Rafn Markús Vilbergsson var í fyrsta skipti í byrjunarliði í efstu deild.  Samúel Kári Friðjónsson var í fyrsti skipti í leikmannahópi í efstu deild en hann er aðeins 16 ára gamall.
     
  • Þeir Einar Orri Einarsson, Frans Elvarsson og Denis Selimovic tóku allir út leikbann og því var meðalaldur og reynsla leikmannahópsins minni en venjulega.  Leikmennirnir sjö sem hófu leikinn á varamannabekknum voru t.d. 16, 17, 19, 19, 20, 20 og 29 ára.  Þar munar mest um Hörð Sveinsson sem dregur meðalaldurinn upp í 20 ár en meðalaldur hinna er 18,5 ár.  Varamennirnir höfðu leikið 0, 0, 0, 1, 4, 15 og 103 leiki í efstu deild!
     
  • Enn heldur afleitt gengi Keflavíkur á heimavellí áfram.  Liðið er búið að leika níu heimaleiki í deildinni í sumar og hefur unnið tvo, gert tvö jafntefli og tapað fimm.
     

Fótbolti.net
,,Við töpuðum illa og fengum þrjú mörk á okkur á nokkrum mínútum sem mér finns ekki skipta neinu máli," sagði Guðmundur Steinarsson eftir 0-4 tap Keflavíkur gegn Val heima í kvöld en þrjú markanna komu á síðustu mínútum leiksins.

,,Við vorum búnir að hlaupa hérna eins og maraþonhlauparar eftir að hafa lent undir í leiknum og svo fær hitt liðið að berja á okkur og ég veit ekki hvað og við fáum spjöld og fjúkum útaf við minnstu brot. Það hallaði gríðarlega á okkur í þessum leik og það er erfitt að spila svona leiki þegar þú ert nokkrum mönnum færri," sagði Guðmundur en fannst honum dómarinn vinna gegn þeim?

,,Já ég er að segja það og með frammistöðunni sem þeir sýndu hérna í dag þá kæmust þeir ekki í liðið hjá Keflavík aftur á þessu tímabili."

Hilmar Geir Eiðsson fékk rauða spjaldið eftir hálftíma leik fyrir tæklingu. Guðmundur tjáði sig um það.

,,Þetta var brot og mér fannst það vera gult. Og miðað við þau brot sem urðu eftir á þá voru klárlega fleiri sem áttu að fjúka útaf. Það hallað á anað liðið í þessu leik.

Fréttablaðið / Vísir
Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflavíkur var þrátt fyrir allt nokkuð ánægður með sína menn.

„Við börðumst vel í 85 mínútur en það verður að viðurkennast að við litum illa út í fyrsta markinu.“ Zoran fékk rautt spjald fyrir mótmæli í síðari hálfleik.

„Ég veit ekki hvað er í gangi hérna, ég spurði bara hvort að við mættum ekki mótmæla.“

Ómar 6, Hilmar Geir 4, Jóhann Ragnar 4, Rafn Markús 4, Haraldur 5, Magnús Þór 3, Sigurbergur 5 (Daníel -), Jóhann Birnir 4, Magnús Sverrir 4, Bojan Stefán 5, Guðmundur 4.

Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar voru heldur hnípnir eftir leikinn. »Ég get helst sagt að ég er ótrúlega sorgmæddur yfir þessum úrslitum,« sagði Ómar Jóhannsson, markvörður Keflvíkinga sem varði oft vel. »Við börðumst ágætlega og þó við höfum ekki fengið mikið af færum er alltaf hægt að jafna með skítamarki eins og horni eða aukaspyrnu en það fór því miður allt loft úr okkar við annað mark þeirra. Við bara byrjuðum illa og því miður sást að okkur vantaði menn, vorum með þrjá í banni og nokkrir meiddir. Við vorum seinir í gang og menn að venjast nýjum stöðum en það er engin afsökun fyrir því að vera ekki á tánum inni í teig þegar boltinn berst þangað og Valsmenn eru einfaldlega beittari, ná að pota boltanum í markið frekar en við að koma honum frá.«

M: Ómar, Haraldur Freyr, Sigurbergur.

Víkurfréttir / VF.is
Heimamenn léku laskaðir í kvöld ef svo má segja því þeir söknuðu nokkurra fastamanna vegna leikbanna og meiðsla en þeir Frans Elvarsson, Denis Selimovid, Einar Orri Einarsson og  Hörður Sveinsson voru utan vallar. Þá er Arnór Ingvi Traustason farinn til Noregs og því óhætt að segja að Keflvíkingar hafi verið í erfiðri stöðu fyrir leikinn. Á varamannabekknum mátti sjá unga kappa sem hafa ekki verið í hópnum í sumar eins og Samúel Friðjónsson og Elías Már Ómarsson.

433.is
Zoran var mjög reiður eftir leikinn í kvöld og ósáttur við Þórodd dómara. Zoran var rekinn upp í stúku en lítið fór fyrir því þar sem það virtist hafa farið framhjá öllum nema honum.

"Erfitt að segja eitthvað, við byrjum ekki alveg nógu vel þennan leik. Og fyrsta mark, við lítum illa út," sagði Zoran eftir leikinn.

Umdeilt atvik átti sér stað á 66. mínútu þegar Bojan var tekinn niður inn í vítateig en ekkert dæmt. "Í stöðunni 1-0 fannst mér að við áttum að fá víti."

Ómar 4, Hilmar Geir 3, Jóhann Ragnar 4, Rafn Markús 4, Haraldur 5, Magnús Þór 2, Sigurbergur 5 (Daníel -), Jóhann Birnir 4, Magnús Sverrir 4, Bojan Stefán 4, Guðmundur 4.


Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 27. ágúst 2012
Keflavík 0
Valur 4
(Kolbeinn Kárason 15., 83., Indriði Áki Þorláksson 88., 90.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson,  Hilmar Geir Eiðsson, Jóhann R. Benediktsson, Rafn Markús Vilbergsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Bojan Stefán Ljubicic Magnús Þór Magnússon, Sigurbergur Elísson (Daníel Gylfason 83.), Jóhann Birnir Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Eyþór Ingi Einarsson, Samúel Kári Friðjónsson, Elías Már Ómarsson, Hörður Sveinsson .
Rautt spjald: Hilmar Geir Eiðsson (29.).
Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (32.), Jóhann R. Benediktsson (62.), Rafn Markús Vilbergsson (77.).

Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr.
Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Haukur Erlingsson.
Eftirlitsdómari: Þórður Ingi Guðjónsson.
Áhorfendur: 850.
 

Myndir: Jón Örvar.