Stórt tap hjá 2. flokknum
Keflvíkingar sóttu ekki gull í greipar KR-inga og blasir nú við sæti í B-riðli fyrir næsta tímabil. Það voru KR-ingar sem settu fyrsta markið á 11. mínútu. Níu mínútum síðar dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu á Keflvíkinga eftir stórkostlega leikræna tilburði hjá sóknarmanni KR og skoruðu KR-ingar sitt annað mark úr henni. Á 40. mínútu gerðu svo KR-ingar sitt þriðja mark. Seinni hálfleikurinn hófst með fjórða marki KR-inga og á 78. mínútu gerðu þeir sitt fimmta og síðasta mark. Loktölur því 5-0 fyrir KR og Keflvíkingar í hraðlestinni á leiðinni niður í B-riðil.
Markmiðið var að sækja a.m.k. eitt stig. Leikskipulagið var að loka fyrir kantspil KR-inga. Það kom strax í ljós að KR-ingar bjuggust ekki við skipulögðum varnarleik því þeir fóru fljótlega að senda háar sendingar inn á miðsvæðið. Með einn framherja tókst Keflvíkingum að valda usla strax á fyrstu mínútu en ekki tókst að koma boltanum í netið. Á 11. mínútu keyrðu KR-ingar upp vinstri kantinn og náðu að koma boltanum á miðsvæðið. Á miðsvæðinu var mikið klafs um boltann og miðverðirnir (Ömmi og Jói) misstu sóknarmanninn frá sér, hann stakk sér í vítateiginn og skoraði. Næstu mínútur fóru í það að sækja og áttu Aron og Ingvi mestan þátt í að skapa færi fyrir aðra leikmenn. Einar komst upp að vítateignum en brást bogalistin. Þegar 20 mínútur voru liðnar fengu KR-ingar háa sendingu yfir hálfan völlinn og náði sóknarmaður KR boltanum og geysist að teignum. Eftir eltingarleik við Ömma fellur KR-ingurinn með tilþrifum sem undirritaður hefur einungis séð í myndum Lauren og Hardy (Steini og Olli), þ.e. hoppar upp jafnfætis og með hælana í 2ja metra hæð. Dómari leiksins, sem hafði ekki séð þessa útfærslu á nýjustu mynd þeirra félaga, dæmdi vítaspyrnu og KR-ingar skoruðu sitt þriðja mark. Nokkrar skyndisóknir KR-inga fylgdu í kjölfarið og Maggi sýndi frábæra takta í markinu og kom í veg fyrir að þrjú dauðafæri þeirra færu í markið. Á 40. mínútu, eftir að hafa skipt með sér nokkrum tæklingum og góðum tilþrifum, fengu KR-ingar innkast hægra megin við mark gestanna. Boltinn barst inn að vítateig og eftir miklar þreifingar upp við vítateigsbogann fór boltinn til sóknarmanns, sem var einn og óvaldaður, náði skoti að marki og skoraði. KR-ingar komnir með þægilega stöðu rétt fyrir hálfleik, 3-0. Í seinni hálfleik hófu heimamenn leikinn með hörku sóknarleik og uppskáru eins og þeir sáðu eða með marki á 47. mínútu. Hár bolti kom en Jói misreiknaði boltann, sem strauk kollinn á honum og opnaðist þannig greið leið fyrir sóknarmann KR. Sóknarmaðurinn virtist kolrangstæður en Garðar, nýkominn inná fyrir Ömma, spilaði hann réttstæðan og var eftirleikurinn auðveldur fyrir KR-inginn sem setti boltann í netið. Keflvíkingar fengu margar sóknir eftir fjórða mark KR-inga en eins og oft áður var andleysið ekki bara bundið við varnarleikinn heldur var það einnig í sóknarleiknum í sumar. Einar komst m.a. einn inn fyrir eftir að markvörður KR-inga átti misheppnaða sendingu fram völlinn en brást bogalistin illilega. KR-ingar virtust gefa miðjuna mikið eftir en gestirnir nýttu sér það ekki. Fannar átti góða rispu upp kantinn og kom boltanum fyrir en Aron skallaði rétt yfir slánna. Á 78. mínútu unnu KR-ingar boltann á miðjunni og lyftu boltanum upp í vindinn. Raggi stökk manna hæst en boltinn strauk enni hans og beint fyrir fætur sóknarmanns KR-inga sem keyrði inn í vítateiginn og skoraði framhjá Magga. KR-ingar komnir í 5-0 og 12 mínútur eftir. Á lokamínútunum reyndu gestirnir að koma boltanum framhjá sterkri KR-vörninni en allt kom fyrir ekki og 5-0 tap á KR-vellinum því staðreynd!!!
Það er sorglegt að upplifa tímabil þar sem ekkert gengur upp. Leikmenn finna ekki taktinn inná vellinum, mikið af grunnmistökum gefa mörk og hópurinn þynnist þegar líður á tímabilið. Með nýjum mönnum koma oft ferskir vindar og sterkur meðbyr en stundum er líka betra að róa með. Þrátt fyrir að mikið lægi undir í leiknum gegn KR var eins og það vantaði bara herslumuninn í sóknaraðgerðunum. Leikmönum var refsað allsvakalega fyrir að nýta ekki færin eða daprar sendingar. Hver leikur hefur verið uppá líf og dauða í ár og því mikilvægt að leikmenn skilji það að ekkert er gefins í þessari íþrótt. Það þarf nefnilega að leggja sig 100% fram, ef ekki 110%. Raggi var besti maður vallarins ásamt Magga í markinu. Raggi, sem er á elsta ári í 3. flokki, hafði sóknarmenn KR í vasanum, einbeittur og gafst ekkert upp. Ljóst er að þarna er kominn fram leikmaður sem getur leikið bakvörð jafnt sem miðvörð. Maggi átti fyrri hálfleikinn og átti 3 glæsileg tilþrif en í seinni hálfleiknum var hann ekki eins áberandi. Addi átti góðan leik í bakverðinum og hefur verðið mjög vaxandi í undanförnum leikjum.
Næsti og jafnframt síðasti leikur tímabilsins verður gegn ÍA mánudaginn 8. september og verður hann háður í Keflavík kl. 18:00.
Keflavík 4-5-1
Byrjunarlið:
1. Magnús Þormar (M)
2. Arnar Halldórsson
3. Jóhannes Bjarnason
4. Ragnar Magnússon
5. Þorsteinn Georgsson
6. Jóhann I. Sævarsson
7. Fannar B. Gunnólfsson (út ´81)
8. Einar Ottó Antonsson
9. Ögmundur Erlendsson (F) (út ´46)
10. Aron Smárason
11. Ingvi R. Guðmundsson (út ´83)
Varamenn:
12. Guðmundur Á. Þórðarson (M)
13. Garðar Karlsson (inn ´46)
14. Davíð Hallgrímsson (inn ´81)
15. Ólafur Jón Jónsson
16. Garðar Sigurðsson (inn ´83)
Þjálfari: Jóhann Emil Elíasson
Jóhann Emil Elíasson þjálfari skrifar