Stórt tap hjá strákunum
Keflvíkingar mættu Breiðablik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í 4. flokki. Það var vitað að leikurinn yrði erfiður þar sem flestir telja að Breiðablik hafi á að skipa besta liði landsins í þessum aldursflokki. Blikar hófu leikinn með að sækja og Keflvíkingar vörðust og beittu skyndisóknum. Þessi leikaðferð gekk ekki upp og eftir aðeins 8 mínútur lá boltinn í netinu og það voru Keflvíkingar sem sáu um að skora fyrir Breiðablik, 0-1. Eftir markið kom Keflavík meira inn í leikinn og jafnræði var með liðunum allt þar til 5 mínútur voru til hálfleiks, þá skoruðu Blikar tvö ódýr mörk og staðan var orðin 0-3. Í síðari hálfleik bættu Blikar við þremur mörkum til viðbótar og lokastaðan var 0-6 fyrir Breiðablik.Sigur Breiðabliks var sanngjarn, en óþarflega stór. Þetta var fyrsti tapleikur Keflavíkurstrákana í sumar og liðið lék langt undir getu. Næsti leikur er í dag kl. 14 á aðalvellinum í Keflavík og þá mætir Keflavík liði KA. Við vitum að strákarnir ætla ekki að endurtaka leikinn frá því í gær og ekkert annað en sigur kemur til greina í dag. Við hvetjum alla til að mæta á völlinn, hvetja strákana okkar og sjá framtíðarleikmenn Keflavíkur í ham. Áfram Keflavík.