Stuðningur við Íþrótta-Akademíu
Stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur hefur sent Bæjarstjórn Reykjanesbæjar stuðningsyfirlýsingu vegna byggingu Íþrótta-Akademíu í Reykjanesbæ. Ályktunin er svohljóðandi.
"Nýkjörin stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur er kom saman til fyrsta fundar miðvikudaginn 17. nóvember sl. fagnar þeim glæsilega áfanga er átti sér stað sl. laugardag (13.11) þegar skóflustunga var tekin að Íþrótta-Akademíu í Reykjanesbæ. Stjórn deildarinnar telur stofnun Akademíunnar eitt mesta framfaraspor í menntamálum á Suðurnesjum. Þá er ljóst að með tilkomu Akademíunnar mun fjöldi íþróttafólks af öllu landinu og jafnvel víðar að stunda þar nám. Akademían mun því hleypa nýju lífi í allt íþróttastarf í Reykjanesbæ og styrkja það til allrar framtíðar. Hér hefur verið stigið djarft skref í framfaramálum Reykjanesbæjar til langrar framtíðar litið."