Sveindís afgreiddi Álftanes á sex mínútum
Keflavíkurstúlkur gerðu góða ferð á Álftanes í dag þegar þær heimsóttu Álftanes í Borgunarbikarnum og komust sannfærandi í 16 liða úrslit keppninnar.
Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en á 41 mínútu skoraði Anita Lind Daníelsdóttir glæsilegt mark og sá til þess að Keflavík leiddi 1-0 í hálfleik. Heimastúlkur byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur og jafnaði Oddný Sigurbergsdóttir leikinn á 49. mínútu með skalla upp úr hornspyrnu.
Á 59. mínútu kom hin 14 ára Sveindís Jane Jónsdóttir inn á og átti hún aldeilis eftir að láta að sér kveða. Á sex mínútna kafla gerði stúlkan þrennu, það fyrsta á 64. mínútu, það næsta á þeirri 68. og það þriðja á 70. mínútu. Sveindís var ekki hætt, hún setti fjórða markið sitt á 80. mínútu og lagði svo upp mark fyrir jafnöldru sína, Kötlu Maríu Þórðardóttur á 92. mínútu. Niðurstaðan 6-1 sigur og sæti í næstu umferð bikarsins tryggt með stæl.
Stelpurnar stóðu sig frábærlega í leiknum og áttu sigurinn svo sannarlega skilinn. Keflavík er komið í 16 liða úrslit Borgunarbikarsins, þar sem úrvalsdeildarliðin koma inn í keppnina. Dregið verður í bikarnum á þriðjudaginn.
Næsti leikur hjá stelpunum er gegn grönnum sínum úr Grindavík á Íslandsmótinu. Leikurinn fer fram á Nettóvellinum í Keflavík mánudaginn 30. maí.
Myndband af fyrsta marki leiksins hjá Anitu Lind
Byrjunarlið Keflavíkur í leiknum.
Efri röð frá vinstri: Arndís Snólaug Ingvarsdóttir (fyrirliði), Íris Una Þórðardóttir,
Katla María Þórðardóttir, Brynja Pálmadóttir, Ljiridona Osmani, Amber Pennybaker.
Neðri röð frá vinstri: Þóra Kristín Klemensdóttir, Birgitta Hallgrímsdóttir, Sarah Story,
Kristrún Ýr Holm, Anita Lind Daníelsdóttir.
Markaskorarar dagsins, Katla María Þórðardóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir
og Anita Lind Daníelsdóttir.