Fréttir

Knattspyrna | 9. júní 2010

Svekkjandi tap í bikarnum

Kvennalið Keflavíkur er fallið úr leik í VISA-bikarnum þetta árið eftir tap gegn Selfossi í framlengdum leik.  Spilað var á Iðavöllum og var "stúkan" þar þétt setin!  Þess má geta að lið Selfyssinga spilar í 1. deild eins og okkar lið en í öðrum riðli.

Leikurinn var hin besta skemmtun.  Liðin reyndust jöfn og leikurinn stórskemmtilegur.  Okkar stúlkur sköpuðu sér fleiri færi en náðu ekki að nýta þau nógu vel.  Keflavík komst yfir um miðjan fyrri hálfleikinn með glæsilegri aukaspyrnu frá Nínu Ósk.  Selfoss jafnaði úr víti skömmu síðar en þar var Katrín Ýr Friðgeirsdóttir að verki.  Staðan var því jöfn í hálfleik, 1-1.

Síðari hálfleikur var ekki ósvipaður þeim fyrri.  Keflavík fékk fleiri færi en tókst sem fyrr ekki að nýta þau.  Staðan var jöfn að loknum 90 mínútum og því þurfti að grípa til framlengingar.  Þar fengum við dæmt á okkur annað víti fyrir hendi.  Okkar stúlkur voru ekki ánægðar með þann dóm enda vildu þær fá dæmda hendi á Selfoss fyrir samskonar brot rétt áður.  En Selfoss nýtti vítið þó Margrét hafi verið grátlega nálægt að því verja frá Katrínu.

Lokatölur 1-2 fyrir Selfoss, ósanngjarnt að mati okkar fólks.  En þannig er fótboltinn og við höldum bara okkar striki í deildinni.


Okkar stúlkur komnar inn í vítateig gestanna eins og svo oft í leiknum.


Varamannaskýlin ekki beint falleg (en stelpurnar okkar eru alltaf fallegar!).


"Stúkan" í öllu sínu veldi.


Hundurinn Gulli Fanneyjarson (rottan) átti góða innkomu.