Fréttir

Knattspyrna | 22. september 2005

Synir Siggu og Svenna...

Það er ekki óalgengt að systkini nái langt í íþróttum og knattspyrnufólk í Keflavík er þar engin undantekning.  Jón og Steinar Jóhannsynir, Hörður og Friðrik Ragnarssynir, Óli Þór og Jóhann Magnússynir, Björg Ásta og Guðný Þórðardætur hafa öll gert garðinn frægan með knattspyrnuliði Keflavíkur og þá eru margir ótaldir.  En það er sjaldgæfara að þrjú systkini leiki fyrir sama félag og vinni titla með því.  Þetta hafa bræðurnir Adolf, Gunnar og Hörður Sveinssynir þó gert með Keflavík.  Þeir Adolf og Gunnar urðu bikarmeistarar með Keflavík árið 1997 og Adolf átti einmitt þátt í frægu jöfnunarmarki í úrslitaleiknum.  Í fyrra bættist Hörður svo í hópinn, varð bikarmeistari með Keflavík og skoraði þriðja mark liðsins í úrslitaleiknum.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um frammistöðu Harðar í sumar; hann skoraði 9 mörk í Landsbankadeildinni og bætti við 5 mörkum í Evrópuleikjum sumarsins.  Þeir Adolf og Gunnar hafa líka látið til sín taka á knattspyrnuvöllunum í sumar; Adolf lék með liði Reynis sem bar sigur úr býtum í 3. deildinni og Gunnar lék með Njarðvík í 2. deildinni.  Alls lögðu þeir bræður Suðurnesjaliðunum til 45 deildarleiki og 18 mörk í sumar.

Foreldrar bræðranna, þau Sigríður Gunnarsdóttir og Sveinn Adolfsson, hafa ávallt stutt syni sína á knattspyrnuferlinum auk þess að hafa lengið verið dyggir stuðningsmenn Keflavíkur.  Í sumar hafa þau Sigga og Svenni því haft nóg að gera við að fylgjast með leikjum þessara þriggja Suðurnesjaliða og verið á fleygiferð um Suðurnesin og landið allt við að fylgja drengjunum eftir.

Þrátt fyrir að bræðurnir hafi dreift sér á helstu knattspyrnulið Reykjanesskagans náði Jón Örvar samt að smella af þeim mynd á dögunum.  Eins og sjá má á myndinni má segja að hún sé í boði Sparisjóðsins í Keflavík sem er ekki aðeins aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar Keflavíkur heldur má segja að Sparisjóðurinn sé helsti bakhjarl knattspyrnunnar á Suðurnesjum.


Frá vinstri: Gunnar, Hörður og Adolf Sveinssynir.